07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (4736)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Guðbrandur Ísberg:

Í sambandi við þetta mál vil ég leyfa mér að minna á, að á aðalþinginu 1933 kom fram till. um að knýja Söfnunarsjóð Íslands til að lækka vexti niður í 5%. Því var þá lýst yfir af tveim þáv. ráðh., að þetta mundi verða gert. Og ég tel alveg víst, að þessi yfirlýsing hafi komið fram vegna vilyrða stj. þessarar stofnunar um að lækka vextina niður í 5%. Úr þessu varð þó alls ekki. Og mér finnst það gegna furðu, eftir þessa framkomu sjóðstj., ef nú á að fara að treysta þeim aftur til þess að lækka vexti ótilneyddir. Auk þessa vil ég benda á það, að nú mun í ráði, að annar aðalbankinn veiti lán til áhættusamrar útgerðar með 5½% vöxtum. Og þegar áhættulán komast niður í 5½% vexti, þá virðist það ekki nema eðlilegt, að þær stofnanir, sem lána gegn beztu tryggingum, sem hægt er að fá, sem sé fyrsta veðrétti í fasteign, séu knúðar til þess að lækka vexti niður í 5%, eins og gert er ráð fyrir í frv. Auk þess sé ég enga frambærilega ástæðu til þess að mismuna lántakendum að þessu leyti. Mér virðist í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 690, aðallega vera stefnt að því að halda uppi vöxtum af lánum úr Söfnunarsjóði, sem veitt eru í kaupstöðum gegn veði í húseignum. Það má kannske segja, að þessar eignir renti sig betur en jarðir í sveit. En bæði er það, að þessi stofnun lánar aðeins gegn fyrsta veðrétti og aðeins út á helming fasteignar eftir fasteignamati, svo að hér er aðeins um hluta af áhvílandi fasteignaveðslánum að ræða, og svo má einnig benda á hitt, að Söfnunarsjóður hefir veitt allmörg og mikil lán, sem ekki eru tryggð með veði í húsum eða jörðum, og þau lán eru alveg eins eða jafnvel hvað helzt lánuð út um sveitir. Það er því engan veginn ástæða til að gera þann mismun þar á, sem brtt. gerir ráð fyrir.

Ég mæli ákveðið á móti því, að brtt. þessi verði samþ., bæði vegna þess, að ég sé enga frambærilega ástæðu til þess, að við þessa stofnun verði mismunandi vaxtafótur látinn gilda um lán, og eins vegna þess, að eftir því, sem á undan er gengið, dettur mér ekki í hug að treysta viðkomandi stofnun til þess að færa niður vexti án þess að vera knúð til þess.