19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í C-deild Alþingistíðinda. (4741)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. (Páll Hermannsson):

Eins og hv. þdm. er sjálfsagt vel kunnugt, hefir oft verið á það minnzt, að framleiðendur í þessu landi, og þá ekki sízt framleiðendur, sem landbúnað stunda, þyrftu að sæta vaxtakjörum á lánum sínum, sem þeim væri um megn. Þetta hefir nú líka verið viðurkennt af ríkisvaldinu og löggjafarsamkomunni, á þann hátt, að að undanförnu hefir verið heimild fyrir því, að ríkissjóður greiddi að nokkru fasteignalánsvexti fyrir bændur. — Nú á þessu þingi hefir verið reynt að færa niður þá vexti, er bændur greiða af sínum fasteignaveðslánum, á þann hátt, að ríkissjóður þurfi ekki að öllu leyti að bera þau útgjöld, er af því stafa að færa vextina frá því, sem þeir eru hjá lánstofnunum, og niður í það, sem bændur hafa greitt.

Svo stendur á, að Söfnunarsjóður Íslands er lánveitandi til allmargra bænda og hefir að undanförnu veitt sín lán með 6% ársvöxtum. Þetta frv. er liður í þeirri tilraun að færa vextina niður, og gerir ráð fyrir því, að framvegis verði Söfnunarsjóði ekki heimilt að reikna hærri vexti en 5 af lánum, sem tryggð eru með fasteignaveði. Eftir lögum frá 1888 hefir Söfnunarsjóður, samkv. c-lið 6. gr. þeirra laga, heimild til þess að taka hærri vexti heldur en 4% um árið, en það er þar hinsvegar ekki ákveðið, hvað hátt hann megi fara. Það er sjálfsagt, að þá hefir aðallega verið gengið út frá 4% vöxtum, þó að tímarnir séu að því leyti mikið breyttir nú. Þetta frv. ætlast sem sé til þess, að þessi heimild laga um Söfnunarsjóð Íslands frá 1888 skuli þó ekki ná lengra heldur en í 5%.

Þetta frv. er borið fram af landbn. Nd. og hefir fengið afgreiðslu þeirrar hv. d. Landbn. þessarar hv. d. hefir nú athugað frv. og gefið út um það stutt nál. á þskj. 845. Tveir nm. leggja til fyrirvaralaust, að frv. verði samþ., en aðrir tveir nm., hv. 4. landsk. og hv. 10. landsk., skrifa undir þetta nál. með fyrirvara. Ég vil og geta þess um fimmta nm., hv. 2. þm. Rang., að hann var ekki á fundi þegar málið var tekið fyrir, og hann hefir ekki skrifað undir nál. síðan. Ég geri þó ráð fyrir, að honum hafi verið gefinn kostur á því, en að hann hefir ekki skrifað undir nál., geri ég ráð fyrir, að stafi af því, að hann vill leggjast á móti frv.

N. ber hér fram, jafnframt því að hún leggur til, að frv. verði samþ., litla brtt., sem vel má vera, að megi skoða sem leiðréttingu. Það er sem sé í frvgr. vitnað í 6. lið 6. gr. í l. frá 1888, en þessi 6. liður er ekki til, heldur er þar sjáanlega átt við c-lið. Leiðréttingin er því ekki önnur en sú, að í staðinn fyrir 6. kemur c. Það má vel vera, að hv. þd. og hæstv. forseti líti svo á, að þetta megi leiðrétta án brtt., en okkur í n. þótti samt réttara að bera þessa brtt. fram, ef hennar kynni að vera þörf, því að ef það er álitið af hæstv. forseta og hv. þd., að það megi leiðrétta þetta í prentun, er vitanlega hægt að taka brtt. aftur. — Ég vil svo ekki að sinni fjölyrða meira um þetta, en legg til við hv. d., að hún samþ. frv.