19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (4743)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 10. landsk. hefir hér bent á nokkra annmarka, sem væru á því að samþ. þetta frv., jafnvel þó að hann sé sammála því aðalatriði frv., að vextir af fasteignaveðslánum bænda lækki.

Hv. þm. benti á það, að Söfnunarsjóður sé ekki venjuleg lánsstofnun. Það mun mega telja, að það sé alveg rétt, en hitt er þó líka rétt, að hann lánar út mikið fé með venjulegum lánskjörum. Hann á sem sé hjá bændum allmikið fé, en það veit hvorugur okkar fyrir víst, hversu mikið það er, en það er sennilega meiri hlutinn af öllu fé sjóðsins. Af þessu fé þurfa bændur að greiða 6% ársvexti. Og það er einmitt með hliðsjón af þeirri staðreynd, að ráðizt hefir verið í að leggja til, að vextir Söfnunarsjóðs skuli ekki framvegis vera svona háir, fyrir það, hvað sjóðurinn á nú mikið fé hjá bændum.

Í öðru lagi benti hann á það, að Söfnunarsjóður muni í framtíðinni hverfa frá því að lána fé gegn fasteignaveði, en kaupa heldur verðbréf. Ég heyri sagt, að Söfnunarsjóður hafi eiginlega hugsað sér það fyrir framtíðina, að kaupa veðdeildarbréf, en lána ekki. Það mætti í þessu sambandi viðurkenna það, að ef Söfnunarsjóður ætti kost á hærri vöxtum með verðbréfaskiptum en útlánum, þá kynni hann að ráðast í að innheimta lán, sem hann á hjá bændum, til þess að koma þeim betur fyrir, en ég geri ekki ráð fyrir, að yrði undinn að því bráður bugur, af því að ég hugsa, að það yrði ekki þægilegt að koma því við, og þar að auki mjög óvinsælt.

Þá bendir hann á það, hverskonar fé það er, sem Söfnunarsjóður hefir með höndum, og hann segir, að þessi vaxtalækkun komi fram á örvasa gamalmennum, og hann segir, að hún svipti þessi gamalmenni 1/6 af því fé, sem þeir mundu fá á þennan hátt. Vitanlega er það rétt, að ef vextir lækka úr 6% niður í 5%, þá lækka þeir um 1/6. Ef maður virðir fyrir sér ellistyrktarsjóðina og þær reglur, sem þar gilda, þá er það þannig, að þeir hafa þrennskonar tekjur. Í fyrsta lagi 2 kr. gjald af hverjum verkfærum karlmanni og 1 kr. af hverri verkfærri konu. Í öðru lagi sérstakan styrk úr ríkissjóði, 1 kr. á hvern gjaldþegn, og í þriðja lagi vexti af sínu innstæðufé. Ef svo er aftur litið á það, hvernig Söfnunarsjóður notar þessar tekjur, þá er það þannig, að til að greiða ellistyrkinn er notað 2/3 af ellistyrktarsjóðsgjaldinu og helmingur af tillagi ríkissjóðs, þannig að eftir verður hjá Söfnunarsjóði 1/3 af árgjaldi, helmingur af vöxtum og helmingur af tillagi ríkissjóðs. Þetta eru þær reglur, sem ellistyrktarsjóðirnir starfa eftir nú. Nú eru ellistyrktarsjóðirnir rösklega 1½ millj. kr. 1% vaxtalækkun þýðir þá 15— 17000 kr. á ári eftir þeim reglum, sem ellistyrktarsjóðirnir starfa eftir nú. Sýnist mér engin frágangssök að lækka vextina um 1% og búa svo um hnútana, að ellistyrkur verði útborgaður jafnhár og verið hefir. Þetta mundi auðvitað þýða það, að sjóðirnir yxu ekki eins ört, en það finnst mér vel forsvaranlegt á slíkum vandræðatímum sem nú standa yfir, þó að það væri vitanlega ánægjulegast að geta látið þá vaxa sem örast, ef maður hefði ráð á því.

Hv. þm. vildi halda, að það hefði verið misskilningur hjá mér, sem ég sagði í sambandi við þá 4% vexti, sem hefðu verið ákveðnir, þegar Söfnunarsjóðslögin voru sett. Ég benti á, að það væri nú orðið mörgu breytt frá því, sem þá var. En það er þó persónuleg skoðun mín, að 5% vextir séu góðir fyrir þá, sem eiga fé í þessum sjóði og hafa tryggt bæði höfuðstól og vexti, og ég tel það ekkert neyðarúrræði, þó að peningaeigendur verði að sætta sig við 5%, jafnvel þó að erfitt sé að koma því í öllum tilfellum fyrir, því að það er margreynt, að þeir, sem hafa fé í atvinnuvegunum, hafa ekki meira upp úr því.

Hann benti á það, að það væri nú meira innlent fé til heldur en það, sem Söfnunarsjóður hefir yfir að ráða. Það er vitanlega alveg rétt, en ég ætla, að sparifjáreigendur fái ekki hærri vexti af sínu fé en jafnvel þau 5%, sem ætlazt er til, að Söfnunarsjóður taki af útlánum eftir frv., og það er upplýst, að Söfnunarsjóður er þannig staddur, að hann getur greitt sömu vexti þeim, sem leggja í hann fé, eins og þá, sem hér um ræðir.

Hv. þm. benti á það, að sjóðurinn hefði ekki notið neins styrks frá því opinbera. Það má vera, að það sé rétt, að hann hafi ekki fengið beinlínis fjárstyrk, en hann hefir samt fengið aðstöðu til þess að geyma fé og fara með fé og hefir til þess nokkur hlunnindi.

Ég hefi þess vegna ekki getað sannfærzt af aths. hv. þm. um það, að það væri nokkuð úr vegi, að samþ. þetta frv. Sérstaklega lít ég á þetta frv. sem einn lið í þeirri viðleitni, sem þegar er uppi um að lækka vexti á útlánum, sérstaklega til landbúnaðarins.

Ég játa það, að ef ætti að taka þessa einu stofnun út úr, þá gæti það verið mesta álitamál. En nú er það svo, að það er meiningin að láta fara, fram vaxtalækkun á lánum bænda á fleiri sviðum og með því móti, að ríkissjóður þurfi sem minnst að láta beinlínis af mörkum í því efni.

Ég er fyrir mitt leyti sannfærður um það, að ef hægt væri að framkvæma vaxtalækkun án þess að þar þyrftu stór framlög úr ríkissjóði að koma til, þá væri það áreiðanlega heppilegra, því að ég renni grun í það, að ef ríkissjóður á hér að fara að leggja fram styrk, þá vilji fleiri njóta sömu hlunninda, og þá getur það orðið efamál, hvort ríkissjóður getur staðið undir þeim kröfum eða ekki.