19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í C-deild Alþingistíðinda. (4745)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég vil benda á, að mér finnst talsvert vafamál, hvort það bæti fyrir bændum að samþ. þetta frv. Það er auðsætt, að afleiðingin af samþykkt þessa frv. verður fyrst og fremst sú, að Söfnunarsjóður hættir alveg að lána, og má raunar vera, að hann sé hættur því nú þegar. En hér eftir er útilokað, að hann geri það. Með því að kaupa vaxtabréf, hvort heldur er veðdeildarbréf Landsbankans eða bréf Ræktunarsjóðsins, gæti sjóðurinn fengið 6% vexti. Það vita allir, að veðdeildarbréfin fást nú á 80%, og ef menn reikna 5% vexti, eins og þau gefa, þá eru það rúmlega 6% af kaupverði bréfanna. En svo er það athugandi, að auðsætt er, að sjóðurinn fær hvöt til þess að reyna að losa sig við þau fasteignalán, sem hann hefir nú, á þann hátt að segja þeim upp til þess að græða vexti. Nú er ég ekki að segja, að sjóðurinn geri þetta, en ég hygg, að það sé hægt með 6 mánaða fyrirvara, ef ég man ákvæði skuldabréfanna rétt. Það er ekki ólíklegt, að sjóðurinn noti sér greiðsludrátt til þess að segja upp lánunum, að maður nú ekki tali um, að sjóðurinn geri það, sem hann hefir fullan rétt til, að segja upp öllum lánunum. Verði þetta, þá verður frv. þetta ekki til góðs, heldur ills. Ég sé ekki heldur, að það sé sanngirni, sérstaklega ef sjóðurinn er hættur að lána, að færa vextina niður í 5%, þegar aðrar stofnanir lána raunverulega fyrir 6%, eins og t. d. veðdeildin. Ég hygg því, að frv. þetta sé einkum komið fram af því, hve háa innlánsvexti Söfnunarsjóður greiðir. En það mega menn ómögulega láta villa sig. Það gerir sjóðurinn vegna þess, hve ódýrt hann er rekinn og hve hyggilega um allt er búið frá byrjun. En þar við bætist það, sem hv. 10. landsk. tók svo greinilega fram, að mikið af því fé, sem nýtur þessara háu vaxta, kemur til góða fólki, sem er mjög illa statt. Þetta frv. er flutt í góðum tilgangi, það veit ég, en efast um, að það verði þeim bændum til góðs, sem lán hafa fengið úr sjóðnum. En á það er einnig að líta, að ekki eru öll lán úr sjóðnum til bænda. Sjóðurinn hefir líka lánað mikið til húsa í kaupstöðum.

Mér finnst ekki fara vel á því að gera Söfnunarsjóði að skyldu að lána fyrir lægri vexti en ýmsar ríkisstofnanir gera, eins og t. d. veðdeild Landsbankans.