19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (4748)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Frsm. (Páll Hermannsson):

Ég þarf litlu við þessar umr. að bæta. Það er rétt, sem hv. 10. landsk. bendir á, að á þingi 1933 hefir verið breytt þeim reglum, sem gilt höfðu um ellistyrktarsjóði, og það á þann hátt, að vöxtur sjóðanna, eftir því skipulagi, verður dálítið minni en eldri ákvæðin gerðu ráð fyrir, en aftur á móti er hækkuð nokkuð sú upphæð, sem árlega kemur til styrktar gamalmennum, þannig, að procentvis munar minna um þessa lækkun en verið hefði eftir eldri reglum. Ég fór í þessu eftir lögbókinni, og sýnir þetta dæmi, að bókina verður að nota varlega.

Hv. 10. landsk. vildi halda því fram, að lítið tillit hefði verið tekið til þess, hverskonar fé er ávaxtað í Söfnunarsjóði. Ég játa, að þar eru góðir peningar geymdir og gagnlegir, en ég er þeirrar skoðunar, að eins og ástandið er nú og útlitið, þá megi teljast gott að geta fengið 5% vexti af fé, sem vel er tryggt. En það skal ég játa, að ef ekki væri til þess hugsað að reyna að koma á svipuðum ráðstöfunum á fleiri sviðum en þarna, þá víki þessu máli allt öðruvísi við.

Hv. 1. þm. Skagf. benti á það, að það væri ástæðulítið að færa niður vexti Söfnunarsjóðs á meðan veðdeildin tæki hærri vexti. Náttúrlega þyrftu að finnast ráð til þess, að veðdeildin gæti tekið lægri vexti en gert er, en munurinn á þessu er fyrst og fremst sá, að Söfnunarsjóður hefir innlent fé með höndum, sem þægilegt er að ráða yfir, en veðdeildin starfar aftur á móti aðallega með erlendu lánsfé, sem verður að lúta þeim vaxtakjörum, sem á því eru erlendis. Auðvitað væri æskilegt, að þau ráð fyndust, sem gætu orðið til þess, að vextir veðdeildarinnar lækkuðu. Ég verð að álíta, að meðan ekki er hægt að finna leið til að gera bændum kleift að fá lán með lægri vöxtum, þá verði að hafa vaxtatillag ríkissjóðs, meðan hægt er að pína það út úr honum.