14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (4762)

39. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Ég er hv. forseta þakklátur fyrir að hafa tekið þetta mál á dagskrá. Málið er svo kunnugt, að það þarf ekki að ræða mikið um það. Með frv. er farið fram á, að Búnaðarfélagið fái leyfi til að kjósa alla stjórn sína sjálft, í stað þess að ríkisstj., eins og nú er, skipi tvo menn í stjórnina eftir till. sameinaðra landbn. þingsins.

Búnaðarfélagið hefir krafizt þess, að þessi breyt. væri gerð, og það virðist hafa fengið góðar undirtektir í öllum flokkum. Það verður ekki séð, að það sé betra fyrir Búnaðarfélagið, að skipuð sé fyrir það pólitísk stjórn, svo að breyt. virðist sjálfsögð. Ég vænti þess, að hv. dm. sjái sóma sinn í því að vera með þessu frv. og verða þannig við kröfum félagsins. Ég sé ekki að neitt ósamræmi sé í því, að þetta gangi fram nú, þótt til standi að undirbúa ný l. um félagið. — Ég mun ekki fjölyrða meira um þetta og læt mér nægja að vísa til nál. á þskj. 679.