10.10.1934
Efri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (4768)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það er góðra gjalda vert, að sjálfstæðismenn, með hv. 1. þm. Reykv. í broddi fylkingar, eru nú orðnir spenntir fyrir réttri meðferð á fé ríkissjóðs. Kann sumum að virðast, að það sé í seinna lagi, sem þessi iðrun fer fram, eins og lýsir sér í þessu frv. Þeir voru ekkert spenntir fyrir því, sjálfstæðismennirnir, að haga meðferð fjárl. þannig, að eftir þeim sé farið, þegar jöfnunarsjóður okkar var á ferð hér um árið, þar sem átti að leggja tekjur þær, sem umfram voru, í sérstakan sjóð og jafna með því framkvæmdir ríkisins frá ári til árs. Jöfnunarsjóður sá, sem samþ. var að lokum, var ekki nema svipur hjá sjón, hafði ekki inni að halda nein þau ákvæði, sem að gagni gætu komið og væru aðhald fyrir stjórnina.

Ég býst nú við, að minn flokkur geti sætt sig við þetta fyrirkomulag, enda hefir hann stungið upp á nokkuð svipuðu. En það mun sumum að sjálfsögðu þykja hart, að einn maður geti hindrað það, sem álitið er alveg óhjákvæmilegt. Það þýðir ekki að tala um það, eins og hv. flm., að menn muni alltaf verða svo sanngjarnir, og ef drepsótt brýzt út, muni menn ekki halda í peningana, eða ef þarf að ljúka við vegarspotta. Þetta getur vel verið. En það kemur sjálfsagt eitthvað fleira til greina, sem gerir útgjöld óhjákvæmileg eða til mikils gagns fyrir landið, sem meiri hl. í þessari hugsuðu n. vildi láta landsmenn taka á sig og stj. veita fé til. Og jafnframt mundi sá meiri hl. taka ásamt stj. á sig ábyrgð þeirra ráðstafana. Ég sé ekkert á móti því, að meiri hl. bæri ábyrgðina og réði úrslitum; hitt finnst mér ótækt, að einn maður geti haft algert neitunarvald, eins og frv. gerir ráð fyrir. Tökum til dæmis fjvn. Ef hún starfaði undir þessu lögmáli, gætu sjálfstæðismenn og Bændafl., minnihlutaflokkarnir, myndað þann raunverulega meiri hl., þegar um væri að ræða að hindra það, sem hinn þingræðislegi meiri hl. ætlaði að láta gera. Og þó að ég játi, að eðlilegast sé að fara eftir fjárl. og framkvæma ekki annað en það, sem þau mæla fyrir um, þá getur komið það ástand, að brýna nauðsyn beri til að eyða meira fé í einhverju skyni en fjárl. gera ráð fyrir. Ég hefi síður en svo neitt á móti því, að stj. hefði eitthvert aðhald og væri ekki eins einráð og hingað til. Enda felst í þessu frv. heljar ásökun á fyrri stjórnir, og ekki sízt á þá sjálfstæðismenn ýmsa, sem verið hafa ráðherrar undanfarið. Og ég skil ekkert í því, hvernig hv. 1. þm. Reykv. (MJ) hefir getað „platað“ hv. 1. þm. Skagf. (MG) til að vera með í að flytja þetta frv. Því að ég sé ekki betur en að eftir frv., ef það hefði slampazt til að ná samþ. einu ári fyrr, þá hefði hæstv. sami fyrrv. ráðh. gerzt sekur við 143. gr. hinna almennu hegningarlaga, vegna þess að hann greiddi alveg í óleyfi fé úr ríkissjóði í hundruðum þúsunda til óleyfilegrar stofnunar. Ég verð eiginlega að taka svari ráðherrans, mér finnst svo illa með hann farið af hans eigin flokksmanni. Ég get skilið, að andstæðingar hans hefðu gert þetta, en að óreyndu ekki trúað, að hans flokksmenn settu hann í þessa úlfakreppu. Því að vissulega er frv. allt tómar ásakanir í hans garð. Og að þetta hefir ekki komið fyrr fram, og með hliðsjón af því, hvernig sjálfstæðismenn tóku jöfnunarsjóðsfrv. okkar Alþýðufl.-manna fyrir nokkrum árum, þá finnst mér það einhvern veginn komið í hug sjálfstæðismanna, að þeir séu ákaflega vonlitlir, þó þeir telji sér helming þjóðarinnar, að þeir komist til valda bráðlega. Þetta er svo mikil hugarfarsbreyting frá því, sem var. — Að endingu tel ég rétt, að frv. sé athugað í n., allshn. eða fjhn.