10.10.1934
Efri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í C-deild Alþingistíðinda. (4769)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Magnús Guðmundsson:

Ég finn mér skylt að þakka hv. 4. landsk. fyrir þá miklu umhyggju fyrir mér, sem kom svo berlega í ljós í ræðu hans, eins og oft áður. Sýnir hann hér, hversu vinveittur þessi hv. þm. er mér ávallt. En ég ætla þá að segja honum það, að það er ég, sem hefi samið frv., svo að ég hefi ekki verið „plataður“ inn á neitt.

En út af aths. hans um það, hvort rétt væri að heimta samþykki allra nefndarmanna til þess að aukafjárveiting sé lögleg, þá skal ég viðurkenna, að þetta er vafamál. En það verður að gæta þess, að t. d. tveir stjórnarflokkar geta, ef ekki þarf samþykki allra nefndarmanna, notað aðstöðu sína í n. til þess að taka upp fjárveitingu, sem þeir viljandi létu vera að samþ. í þinginu. Með þessu væri hægt að opna leið til að draga fjárveitingavaldið úr höndum Alþingis í hendur nefndarinnar. En það, sem einkum olli því, að mér fannst rétt að setja í frv., að allir þyrftu að vera sammála, var það, að ef fjárveitingin er verulega nauðsynleg, þá taki flokkurinn, sem neitar um fjárveitinguna, á sig svo mikla ábyrgð og óvinsældir, að enginn flokkur sjái sér fært að nota þessa aðstöðu. Þetta er sjálfsagt að athuga í nefnd. Það getur vel verið, að hægt verði að færa fram ástæður, sem sannfæra mig um, að þetta sé ekki heppilegt að öllu athuguðu; en eins og stendur finnst mér það vera þannig.

Ég heyrði, að hv. 4. landsk. var að tala um, að ég hefði greitt nokkuð mikið úr ríkissjóði umfram heimild á síðastl. ári. En ég vil benda honum á það, að allar greiðslur úr ríkissjóði fara fram gegnum fjármálaráðuneytið, og ekkert fæst greitt á annan hátt. Annars er öllum vitanlegt, að ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, er hinn gegndarlausi fjáraustur utan fjárlagaárin 1928—1931, og held ég, að hv. 4. landsk. hafi komið þar nokkuð freklega við sögu. Ég held því, að frv. sé miklu frekar högg á hann en mig.