14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (4780)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Bernharð Stefánsson:

Ég verð að segja það, að hv. 1. þm. Reykv. tókst ekki að sannfæra mig um, að ákvæði 1. gr. kæmu ekki æðinærri ákvæðum stjskr. Mig minnir, að þar standi, að heimild til greiðslu fjár úr ríkissjóði verði að vera í fjárl., fjáraukal. eða sérstökum lögum, en samkv. frv. á samþykki nefndarinnar einnig að vera full greiðsluheimild fyrir ráðh. Hv. þm. Reykv. sagði, að greiðslur eftir þeirri heimild þyrftu auðvitað að koma á fjáraukalög. Það er að vísu rétt, en slíkt er alveg þýðingarlaust, því að þegar fulltrúar allra flokka í n. hafa samþ. slíkar greiðslur, þá er þar með búið að binda hendur þingsins fyrirfram. Ég fæ ekki heldur séð, hvernig ætti að dæma ráðh., sem fengið hefir samþykki til að greiða fé úr ríkissjóði eftir þessum lögum, þótt Alþingi vildi ekki fallast á greiðslurnar á fjáraukalögum. Þótt þetta frv. eigi að vera til að binda hendur ráðh., verður það þannig líka til að létta ábyrgð af honum, þegar nefndin hefir veitt samþykki sitt.