14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (4782)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Jón Baldvinsson:

Ef orðalag mitt heggur nærri stjskr., gerir 2. gr. frv. það ekki síður, og þá ætti það að höggva enn nær, sem þó hefir jafnan viðgengizt, að ráðh. greiði fé úr ríkissjóði utan fjárlaga. (PM: Eins og nokkur efist um það). Þá eru líka allir fjmrh. sekir, því að þeir hafa allir meira og minna tekið fjárveitingavaldið af Alþingi, ef það er að taka fjárveitingavaldið af Alþingi að greiða fram yfir fjárlög.

Ég get ekki betur séð en að þetta höggvi eins nærri stjskr., þótt andstöðuflokkar stj. í ríkisgjaldanefnd veiti samþykki sitt, en það er helzt að skilja á hv. 1. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Rang., að ef sjálfstæðismenn í n. samþykki greiðslur utan fjárlaga, sé stjskr. ekki brotin, en hinsvegar sé hún brotin, ef aðrir geri það — svo ég miði við það ástand, sem nú er. Ef til vill á að lögfesta, að annað mál skuli lagt á sjálfstæðismenn en aðra.