11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (4786)

42. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Briem):

Það var höfuðverkefni síðasta fjárlagaþings að reyna að létta undir með landbúnaðinum í þeirri kreppu, sem gengið hefir yfir þetta land sem önnur.

Þau vandræði, sem bar brýnasta þörf til að leysa og þáv. stj. hafði sérstaklega búið í hendur þingsins, voru skuldamál bændanna. Hefir ekkert þing gert stærri átök til viðreisnar ísl. landbúnaði en það þing, með lagasetningu um Kreppulánasjóð og öðrum ráðstöfunum til styrktar landbúnaðinum, sem þá voru gerðar.

Lagasetning seinasta fjárlagaþings snerist vitanlega fyrst og fremst um það, að létta þær byrðar landbúnaðarins, sem á hann höfðu hlaðizt vegna þess, að sá atvinnuvegur hafði verið rekinn með tapi hin síðustu ár, og koma skuldamálum bændanna í það horf, að þeir gætu sem flestir skuldanna vegna rekið búskap sinn á heilbrigðum grundvelli.

Sú nauðsynin var bráðust. En þó er langur vegur frá, að brýnustu nauðsynjamál landbúnaðarins séu lest með því einu. Það var ekki nóg að styðja landbúnaðinn með því að hjálpa honum til að standast afleiðingarnar af rekstrarhalla undangenginna kreppuára, með því að koma skuldagreiðslunum í hagkvæmara horf. Það mátti vera hverjum manni vitanlegt, að auk þess þurfti að veita þá aðstoð, sem hið opinbera getur í té látið, til þess að landbúnaðurinn yrði ekki áfram rekinn með tapi, heldur gæti gefið nægilegan arð til framfæris og greiðslu vaxta og afborgana og hinna nauðsynlegu framkvæmda. Þetta var síðasta fjárlagaþingi þegar ljóst. Þess vegna samþ. það m. a. tillögur þáv. stj. um styrk til kjötfrystihúsa, sem nauðsynleg eru til þess, að aðalútflutningsvara landbúnaðarins geti komizt í verð á erlendum markaði, og nam sá styrkur hátt upp í ½ millj. króna, að meðtöldum styrk til kjötniðursuðuverksmiðju Sláturfélags Suðurlands.

Þessar ráðstafanir og aðrar, sem gerðar voru á síðasta fjárlagaþingi landbúnaðinum til hagsbóta, svo sem vaxtatillag o. fl., voru mikilsvert spor í rétta átt. Og verður vitanlega að halda áfram á þeirri braut, t. d. verða þau kjötfrystihús, sem enn eru óreist, að njóta sama styrks í framtíðinni. — En þessar ráðstafanir og aðrar, sem gerðar voru á síðasta fjárlagaþingi, voru ekki nægilegar til þess, að landbúnaðurinn gæti aftur orðið rekinn með þeim arði, að hann væri samkeppnisfær við þá atvinnu, sem býðst við sjávarsíðuna, með þeirri hjálp, sem þar er í té látin til atvinnubóta yfir erfiðustu tíma ársins. Þetta mun hv. Ed. á aukaþinginu 1933 hafa verið ljóst, þegar hún samþ. þáltill. um að skora á ríkisstj. að leita eftir tillögum Búnaðarfél. Ísl., Sambands ísl. samvinnufél., Sláturfél. Suðurlands og Mjólkurbandalagsins o. fl. aðila um það, hvort unnt yrði að koma afurðum landbúnaðarins í það verð innanlands, að bændur fengju a. m. k. framleiðslukostnaðinn endurgreiddan.

Þáv. stj. tók málið til meðferðar á þann hátt, að hún aflaði nákvæmra upplýsinga um öll lög og reglur um þessi efni í nágrannalöndunum, og hvaða endurbætur væru þar efst á baugi í þessum málum, samkvæmt þeirri reynslu, sem þar var þegar fengin í þeim efnum. Safnað var og skýrslum um afurðasöluna innanlands, og síðan skipuð nefnd með fulltrúum framangreindra aðila, til þess að gera tillögur um skipun þessara mála, og fékk hún í hendur hin áðurnefndu gögn sér til leiðbeiningar og stuðnings.

Í febrúarbyrjun voru þessum aðilum skrifuð tilmæli um að tilnefna fulltrúa af sinni hálfu í nefndina. Og var nefndin þegar skipuð, er þær tilnefningar voru komnar. N. var ætlað að ljúka svo fljótt störfum, að till. hennar í kjötsölumálinu yrðu það snemma tilbúnar, að hægt væri með bráðabirgðal. að koma þeim í framkvæmd fyrir haustkauptíð, í síðasta lagi. Afurðasölunefndin hafði þó eigi till. sínar fullbúnar fyrr en nokkrum dögum eftir, að hæstv. núv. stj. tók við völdum, og kom því til hennar kasta að leggja hina síðustu hönd á verkið og gefa út hin fyrirhuguðu bráðabirgðal. Núv. stj. breytti eigi í kjötsölumálinu út af till. meiri hl. n. nema í einu atriði. Og þótt framkvæmd l. standi til bóta, þá vona ég, að þau verði nú þegar til gagns fyrir landbúnaðinn.

Enn er þó með öllu óvíst, að uppbót, sízt veruleg, fáist á það freðkjöt, sem flutt er til útlanda, en hinsvegar má vænta, að allveruleg uppbót fáist á útflutt saltkjöt, a. m. k., enda mun þar ekki af veita, eftir þeim horfum, sem nú eru um saltkjötsmarkaðinn í Noregi.

En þrátt fyrir þetta, og þótt vonandi takist vel um kjöt- og mjólkursölumálið á þessu þingi, á hér við máltækið, að „betur má ef duga skal“.

Þegar um viðreisn landbúnaðarins er að ræða, er það einkum fernt, sem gera þarf, og gera verður, til þess að þessi atvinnuvegur fái staðizt og notið sín:

1. að koma skuldamálunum í viðunanlegt horf,

2. að hækka afurðaverðið,

3. að lækka framleiðslukostnaðinn, og

4. að gera bústofnseignina tryggari en nú er. Hvað fyrsta atriðinu viðvíkur hefir þegar verið lagður grundvöllur til að vinna á, og fyrir hv. Nd. liggur þegar frv., sem miðar í þá átt að létta undir byrðina af þeim lánum bænda, sem Kreppulánasjóðurinn tekur ekki til 1).

Um 2. atriðið verður að vænta þess, að takast megi að koma innanlandsmarkaðinum í sæmilegt horf. En hvort þær ráðstafanir, sem nú eru á baugi, nægja til þess að menn fái nokkurnveginn framleiðsluverð fyrir útfluttar landbúnaðarafurðir, verður eftir þeirri reynslu, sem enn er fengin, að teljast nokkuð tvísýnt. Ef svo reynist, að innanlandssalan verði þess ekki megnug að bæta upp útflutningsvörurnar svo sem þarf, þá hefir verið bent aðallega á tvær leiðir:

Önnur er sú, að létta að einhverju leyti þeim byrðum af framleiðslunni, sem stafa af þeim ráðstöfunum, er leitt hafa til hærra gengis ísl. myntar en ella myndi verið hafa. Hin leiðin er sú, sem farin var til styrktar rjómabúunum, þegar þau voru að rísa upp í byrjun aldarinnar, og farin var á seinasta þingi, að veita útflutningsverðlaun fyrir landbúnaðarafurðir.

En þar sem vænta má, að Alþ. því, er nú situr, þyki e. t. v. annmarkar á þessum leiðum báðum, þá er því fremur ástæða til að gefa hinu 3. atriði gaum, að fá framleiðslukostnaðinn lækkaðan betur en enn er.

Framleiðslukostnaður ísl. landbúnaðarafurða verður lækkaður á tvennan hátt:

1. með aukinni ræktun og 2. með aukinni vélanotkun.

Hinu síðarnefnda gerði síðasta fjárlagaþing nokkur skil með því að samþykkja stjórnarfrv. um styrk til heyvinnuvélakaupa o. fl., en að aukinni ræktun hefir Alþ. stutt myndarlegu með jarðræktarl. og styrk til kaupa á erlendum áburði o. fl. En í báðum þessum atriðum er þó umbóta þörf, því að takmarkið er, að allur heyfengur bænda fáist af ræktuðu, véltæku landi. Að því miðar þetta frumvarp, sem hér er til 1. umr. — vil ég drepa á þau atriði frv., sem að þessu lúta.

Eitt af því, sem einkum tefur jarðræktina, eru hin miklu kaup erlends áburðar, sem nú eru henni samfara. Er hvorttveggja, að þau koma tilfinnanlega við létta pyngju jarðabótamanna í landinu, og auka þörf landsins fyrir erlendan gjaldeyri.

Hinsvegar fer enn mikið í súginn af þeim dýrustu efnum, sem jarðræktin þarfnast, vegna ónógrar áburðargeymslu. Talið er, að ef allur búpeningsáburður væri svo hirtur sem skyldi, fengist þar öll fosforsýra og kali, og 2/3 þess köfnunarefnis, sem ræktun landsmanna nú þarfnast.

Þetta verðmæti, sem þjóðin hefir ekki ráð á að láta fara forgörðum, eyðist að verulegu leyti vegna þess, að bændur hafa ekki ástæður til að koma sér upp nauðsynlegum áburðargeymslum. Af þeim erlendu áburðarefnum, sem nauðsynleg eru ræktuninni til viðhalds, er kalíið miklu dýrast, og til þess að þetta dýra efni fari ekki í súginn, þarf hver bóndi að hafa safngryfju.

Samkv. þeim skýrslum, sem fylgja greinargerð frv. þessa, á ein sýslan ekki einu sinni áburðargeymslu fyrir 1/10 hluta þess áburðar, sem til fellur. Aðeins ein sýsla á hús eða þrær yfir helming áburðarins. Alls yfir hafa sveitir landsins ekki komið sér upp áburðargeymslum yfir nema 28,7% af því sem þarf. Augljóst er því, að hér þarf að taka betur á. Og með því að ekki er auðið að gera alla hluti í einu, verður að snúa sér fyrst að því atriðinu, sem mest liggur á. — Tilraunir þær, sem Ræktunarfélag Norðurlands hefir gert um áburðarvarðveizlu, hafa sýnt, að í norðlenzkri veðráttu a. m. k. má varðveita fastan áburð án mjög mikils efnataps, þó hús vanti. En kalíríkasta hluta búfjáráburðarins er ekki unnt að varðveita nema í safnþróm. Þrærnar eru því ennþá nauðsynlegri fyrir jarðræktina en húsin. Og þess vegna er lagt til í þessu frv. að hvetja bændur landsins sérstaklega til þeirra framkvæmda, með því að hækka styrkinn um þriðjung.

Jarðræktinni í landinu hefir miðað mjög myndarlega í áttina síðan jarðræktarlögin komu til sögunnar. En á þeim jarðabótum hafa sumstaðar og jafnvel allvíða verið nokkrir gallar. Einkum eru víða tilfinnanlegir gallar á framræslu jarðvegarins. Jafnvel gömlu túnin eru ekki nægilega framræst, og af því leiðir, að jarðabæturnar endast verr. Frjóefnin, sem í jarðveginum sjálfum búa, notast illa, og þá einnig áburðurinn, sem sumpart er keyptur dýrum dómum erlendis frá. Töðufallið verður minna en ella, og gæði heyfallsins verða sérstaklega miklum mun minni en ef framræslan væri í góðu lagi. Af öllu hinu ræktaða landi eru einungis 7% ræst fram. Og hvað nýræktina snertir sérstaklega, þá hefir ekki nema 28,5% verið framræst.

Nú er hinsvegar á það að líta, að víða a. m. k. er bezta ræktarlandið, sem fyrir hendi er, deiglend jörð, en vegna framræslukostnaðarins, sem bændum hefir vaxið í augum og ekki séð sér fært að rísa undir, hafa þeir oft orðið að taka til ræktunar miklu frjóefnasnauðari jarðveg og margfalt áburðarfrekari, þótt uppskeran verði þar minni en af vel ræstri mýrarjörð.

Þetta er engin ný bóla. Þegar um seinustu aldamót skrifuðu jarðræktarfrömuðir um nauðsynina á aukinni framræslu og töldu hana undirstöðu allrar jarðræktar í landinu. Menn munu minnast orða eins af helztu jarðræktarvinum landsins þá um þetta efni. Hann sagði, að þá fyrst þegar punturinn í skurðuðu stykkjunum væri orðinn fjólublár, yrðu full not hins kemiska kraftar í jarðveginum, og þá væri hægt að byrja á ræktuninni svo að vit væri í. Og þó að skoðanir manna hafi nokkuð breytzt í þessu efni síðan, þá er þessari kenningu enn fullur gaumur gefandi.

Ef tryggja á það, að ræktunin endist og túnin verði ekki þýfð aftur innan lítils tíma, þá er það framræslan, sem byggja verður á. Því er í frv. þessu lagt til að hækka styrkinn til framræslunnar sérstaklega, og stungið upp á hækkun um þriðjung.

Þegar litið er á þau markaðsskilyrði, sem fyrir hendi eru, er ekki síður þörf á að styrkja garðræktina en sjálfa túnræktina, því að ennþá er mikill markaður innanlands ónotaður af þessari tegund innlendrar framleiðslu. Og enn má auka mjög notkun þeirrar ágætu vöru. Mér hefir því þótt ástæða til að gera till. um hækkun styrks til þessarar greinar jarðræktarinnar, og það ekki síður vegna þess, að ef matjurtaræktin gæti aukizt verulega í landinu, leiðir af því stórmikinn gjaldeyrissparnað fyrir ríkið.

Þá er nauðsynlegt vegna framleiðslukostnaðarins að styðja að aukinni vélanotkun. Það mun öllum þeim kunnugt, sem við þessi mál hafa fengizt, hversu mjög búnaðarfél. úti um land berjast í bökkum með greiðslu vaxta og afborgana af vélum, er þau hafa keypt. Menn hafa aftur og aftur orðið að sækja um greiðslufrest á afborgunum, og sum búnaðarfélögin hafa varla treyst sér að greiða vexti.

Þar sem hér er um að ræða nauðsynleg verkfæri, þó að dýr séu, verður að létta undir um kaup á þeim, því að reynslan hefir sýnt, að þá fyrst kemur verulegur skriður á jarðræktarframfarirnar í hverri sveit, þegar menn eiga kost á fullkomnum jarðvinnslutækjum.

Þá kem ég að fjórða atriðinu, sem ég drap á áður, um nauðsyn þess að tryggja betur bústofninn en nú er gert. Nokkuð hefir verið unnið í þá átt, og með hjálp löggjafarinnar hefir verið komið á fóðurbirgðafélögum í allmörgum sveitum, en þeirri þörfu starfsemi miðar of hægt. Einnig er á það að líta, að þó að fóðurbirgðafélög væru víðar en nú er, gæti komið það árferði, að enginn slíkur félagsskapur fengi rönd við reist einvörðungu.

Mest er um vert að tryggja sem bezt nýtingu heyjanna, svo að þau svíki ekki bóndann, þegar mest reynir á. Og við höfum á þessu ári fengið þá áminningu, sem ætla mætti, að þing og stjórn léti sér að kenningu verða og láti ekki lengur dragast úr hömlu að veita þá aðstoð, sem hægt er að láta í té. Þau vandræði, sem bændur á Austur- og Norðurlandi og a. m. k. nokkrum hluta Vesturlands eiga nú við að búa, ættu að færa oss nægilega heim sanninn um, hve brýn þörf er umbóta á þessu sviði. Mönnum ætti því að vera ljóst, hve það skiptir miklu máli, að í votviðrasumrum hafi bændur aðstöðu til að verka t. d. þriðjung heyjanna á þann hátt, að þau verði eigi fyrir miklu efnatapi, miðað við góða þurrheysverkun. En þau ráð höfum við í hendi með því að koma upp votheystóftum yfir nokkurn hluta heyaflans.

Það er hið mesta nauðsynjamál að tryggja nýtingu heyjanna, hvernig sem viðrar, en framkvæmd í þessu efni virðist því miður eiga alllangt í land, þar sem nú eru eigi til votheystóftir yfir nema 3,4% af heyafla landsmanna, og til eru heilar sýslur, sem ekki eiga votheystóftir yfir nema 3—4 hundruð hesta af öllum heyafla sínum, og það jafnvel á votviðrasvæðum landsins.

Við höfum nú fengið hina alvarlegustu áminningu um það, að það er eigi aðeins einn landsfjórðungur, sem þarf á votheystóftum að halda, eins og ýmsir hafa álitið, heldur er þörfin brýn í öllum landshlutum. Jafnvel þó að sæmilega viðri, er hverjum bónda hagkvæmt að eiga votheystóft yfir nokkurn hluta heyjanna, einkum síðara hluta sláttar. Reynslan hefir sýnt, að votheysverkun getur, jafnvel í meðalárferði, sparað að allmiklu leyti fóðurbætiskaup, sem bændur hafa varla ráð á. Það er því lagt til í frv., að styrkur til votheystófta fjórfaldist, þ. e. a. s. hækki úr 50 aurum upp í 2 krónur á hvert metið dagsverk. Jafnframt er lagt til, að búnaðarfélög fái styrk til kaupa á flekamótum, til þess að herða á bændum um að láta eigi þessar nauðsynlegu framkvæmdir dragast.

Það hefir og komið í ljós einmitt á þessu ári, að það er jafnvel eigi nóg að geta komið heyjunum í garð. Núna í haustrigningunum hafa heyin víða skemmzt í garði, af því að eigi hafa verið til nægilegar hlöður með vatnsheldu þaki. Því er lagt til í frv., að styrkir til hlöðubygginga hækki um helming. Þörfin er hér svo brýn, að ég taldi rétt að binda eigi styrkinn eingöngu við steinsteyptar hlöður, eins og nú er í lögum, þó að þær séu vitanlega varanlegastar, heldur er hér lagt til að veita einnig styrk til hlöðubygginga úr öðru efni, ef til þeirra er vandað. Mestu varðar, að heyin ónýtist eigi, eftir alla þá fyrirhöfn, sem það hefir kostað að koma þeim í garð.

Þá taldi ég rétt að leggja til, að leiguliðar á kirkjujörðum og þjóðjörðum nytu sama stuðnings sem aðrir bændur, og að þær jarðabætur, sem leiguliðar nota til greiðslu jarðareftirgjalds, njóti samsvarandi hækkunar á þeim jarðabótadagsverkum, er ganga til greiðslu eftirgjaldsins.

Menn munu segja, að þetta mál sé fyrst og fremst mál sveitanna. En þó að svo væri, ber eigi að ganga framhjá því, að sveitirnar fæða enn nálega helming þjóðarinnar beinlínis og mikinn hluta hennar óbeinlínis með framleiðslu sinni. En þetta er alls eigi eingöngu mál sveitanna, heldur varðar það og kaupstaðina miklu. Það er kaupstöðunum hagur, að sveitabúskapur blómgist, og fæstum mun þykja fýsilegt, að fólksstraumurinn úr sveitum til kaupstaða fari vaxandi, né að hópar uppflosnaðra manna úr byggðum landsins flytjist á sjávarmalirnar, ofan á þann mikla mannfjölda, sem þar býr einatt við atvinnuskort. Þetta er því hagsmunamál landsmanna allra.

Sú þjóð, sem hefir ráð á að leggja hundruð þúsunda króna í lítt arðbæra vinnu í kaupstöðunum — vinnu, sem ekki er til varanlegra atvinnubóta, heldur aðeins bráðabirgðahjálp — hún hlýtur að telja sér eins hagkvæmt að verja nokkru fé til þess að veita öðrum aðalatvinnuvegi landsins nokkru meiri stuðning til sjálfshjálpar. Íslenzk gróðurmold mun áreiðanlega ávaxta fyrir alda og óborna það fé, sem í hana er lagt.

1) Sbr. frv. bændaflokksmanna í Nd. um vaxtatillag.