03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

Kosning til efrideildar

Hannes Jónsson:

Hæstv. forseti neitaði mér um orðið, þegar hann kvað upp úrskurð sinn um kosninguna til Ed.

Það vill nú svo vel til, að það er búið að lýsa yfir því, af þeim, sem samdi þingsköpin, hversu réttmætur slíkur listi var, sem hér er um að ræðu, að hann væri alls ekki á móti þingsköpum. Hæstv. forseti lítur nú öðruvísi á málið og vill úrskurða listann frá. En úr því að hann fór úrskurðarleið í þessu máli, þá er ég alveg undrandi yfir því, hvernig hann vísar frá.

Það er um að ræða þrjá lista. Tveir eru bornir fram af Bændaflokksmönnum, en einn af Alþýðuflokksmönnum. Maður hefði getað skilið, að hæstv. forseti hefði viljað heimta það af flokkunum, að þeir bæru ekki fram á sínum listum menn úr öðrum flokkum. En það virðist vera hið gagnstæða. Og hann virðist heimta að fá að ráða því sjálfur, hverjir skipa Ed. Ég hefði alveg eins getað búizt við, að úr því að ég hafði ekki komizt á neinn lista, væri sjálfsagt að skipa mig í Ed. Það lá opið fyrir að úrskurða, hvern lista ætti að telja borinn fram fyrir hönd Bændaflokksins. Það var listinn, sem Bændaflokksmaður bar fram með Bændaflokksmanni á. En þennan lista úrskurðar hann frá!

Hæstv. forseti segir, að það sé til neitun um það, að þetta sé flokkslisti. En það liggur engin neitun fyrir. Það var svarað fyrirspurn þingmanns út af þessu atriði, á þá leið, að þetta myndi koma fram við atkvæðagreiðsluna. Hv. 10. landsk. taldi sig ekki skyldan að geta þeim, sem spurði, sérstakar upplýsingar um þetta, frekar en það, sem hann gat lesið af skipun listans. Hefði hæstv. forseti spurt flm. listans, var allt öðru máli að gegna. En það gerði hann ekki.

Það er skotið fyrir ofan markið hjá hv. þm. S.-Þ. (JJ) í ásökun hans til hv. 10. landsk. Eða er það ásökun í hans huga, að hv. 10. landsk. kemur með flokksmann sinn á lista? Ég hefði skilið, hefði hann ásakað mig fyrir að koma með lista með Alþýðuflokksmanni á. Nei, það gerir hann ekki. En þegar þessum mönnum með svona hugsanagang slær saman, þá er ekki undarlegt, þótt eitthvað áður óheyrt komi á daginn.

Ég verð að segja, að það, sem gert hefir verið með þessum úrskurði, er það mesta þingglapræði, sem hugsazt getur, þó að við verðum að þola það, sem óréttinum erum beittir. Er þetta því verra, sem við höfum enga möguleika til að bera hönd fyrir höfuð okkar.