19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (4818)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Samkomulagið er svo gott á milli mín og hv. flm., að það út af fyrir sig gefur ekki tilefni til eldhúsdagsumræðna. En það er rétt, sem hv. þm. sagði, og ég raunar tók fram í minni ræðu, að til þessara flutninga hafa verið keypt nokkuð gömul skip og þar af leiðandi með vægara verði. Þetta er alls ekki æskilegt, en orsakast að því, hvernig atvinnuvegurinn er, að hann stendur ekki undir nema lágu verði. Þeir, sem hafa keypt þessi skip, hafa verið að reyna að sanna, að þótt skipin séu ekki ný, þá geti þau verið til nokkurrar frambúðar. Hið lága verð orsakast m. a. af því, að vegna minnkandi heimsverzlunar er heilum skipaflotum lagt upp. Þessi nýi íslenzki atvinnuvegur byggist hreint og beint á því, að hægt sé að fá skipin með afarvægu verði.

Hvað bókhaldi og skýrslugerðum viðvíkur, þá skil ég ekki í, að nokkur not séu fyrir loftskeytamanninn til þeirra hluta, því skipstjórinn mun hafa mjög lítið að gera. Ég hefi farið með einu af þessum skipum milli landa og get satt að segja ekki hugsað mér, að nokkur maður hafi meira næði en skipstjórinn í svona ferðum, því að hann hefir bókstaflega ekkert að gera. Mjög mikill tími fer í siglingar í rúmsjó, og í sæmilegu veðri hefir skipstjórinn ekkert að gera. Þetta er því hreinn aukakostnaður. Ef hægt væri að bægja frá harðvítugri erlendri samkeppni, væri það að vissu leyti gott. Við gætum e. t. v. sett lög um það, þótt það sé vafasamt, að skyldan til að hafa loftskeytamann nái einnig til erlendra skipa, sem hingað sigla, en það myndi þá koma út á þann veg, að þessi skip fengjust ekki til að sigla hingað nema fyrir hærra gjald, því að ef þau ættu að hafa loftskeytamann vegna tveggja ferða, eða svo, eftir íslenzkum fiski, þá myndi kostnaðurinn verða svo mikill, að skipin kæmu ekki nema fyrir hærra gjald, væri þá verr farið en heima setið. Þessi harða samkeppni er auðvitað ekki einungis til ills; hún heldur niðri farmgjöldunum og það kemur öllum almenningi til góða; a. m. k. efast ég um, að við óskuðum þess, að fragtirnar hækkuðu. Hv. flm. minntist á það, að ástæður gætu verið til þess að gera þessa kröfu með tilliti til, að farþegaskip eru skyldug til að hafa loftskeytamann. En í því felst ekki, að verið sé að meta líf t. d. 20 farþega meira en líf 20 skipsmanna; en aðstaðan er önnur. Farþegarnir hafa engin skilyrði til þess að meta nokkurn hátt það skip, sem þeir eru sendir með. Þeir sjá einungis auglýst, að þetta skip fari, og farmiðinn er keyptur í trausti þess, að þarna sé vel og örugglega frá öllu gengið. En hvað snertir skipsmennina, þá vita þeir, hvort hér er um manndrápsbolla að ræða og ráða sig ekki á önnur skip en þeir telja sæmilega örugg. Og þótt það komi fyrir, að einn og einn farþegi fái að fljóta með á svona skipi, eins og ég t. d. til Spánar, þá renna þeir ekki blint í sjóinn með það. Það er heimtuð meiri kunnátta af þeim bílstjórum, sem aka farþegabifreiðum, en þeim, sem aka einkabifreiðum. Þetta er gert vegna almennings. Ég held, að við verðum að bíða með þetta þangað til alþjóðasamþykkt hefir fengizt um þetta efni, og það getur vel verið, að það verði innan skamms. Mér er kunnugt um, að hreyfingin í þessa átt vinnur einlægt á og getur þá alltaf krafizt meira og meira öryggis. En fyrst þegar alþjóðasamþykkt hefir verið gerð og allir verða að beygja sig undir þau ákvæði, getum við, okkur að hættulausu, gengið inn á þá braut. Þá er líka útilokuð óheiðarleg samkeppni á þessu sviði við útgerð okkar. Það er rétt, að sum norsku skipin eru óforsvaranleg. Við getum reynt að hafa okkar skip góð, svo að þau fari vel bæði með farþega og farangur og séu eins örugg og unnt er. En við verðum fyrst og fremst að gæta þess, að vísirinn til þessa nýja alvinnurekstrar deyi ekki út hjá okkur.