07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (4820)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Mál þetta hefir legið nokkuð lengi í n. Stafar það sumpart af því, að n. þurfti að hafa tal af ýmsum mönnum, er þetta snertir, og einnig var n. að leita sér upplýsinga og álits sérfróðra manna. Eins og sjá má af nál. á þskj. 314, þótti rétt að leita álits landssímastjóra og eigenda skipanna. Tekur nál. meiri hl. fram öll meginatriði, er okkur þótti máli skipta. Teljum við öryggi meira af loftskeytastöð en talstöð. Um þetta er ágreiningur innan n. Á einu eða tveimur flutningaskipunum eru talstöðvar, en á hinum hvorugt. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvað kostnaður muni verða mikill. Eftir því, sem við höfum komizt næst, munu loftskeytastöðvarnar kosta 4—6 þús. kr. eftir því hvað þær eru kraftmiklar. Þessi kostnaður, 4—6 þús. kr., á skip, sem kosta 150—200 þús. kr., fæ ég ekki séð, að verði þung byrði. Hvað rekstrarkostnað snertir, þá er hægt að gera hann hverfandi lítinn með því að fela skipstjóra eða stýrimanni að annast um loftskeytin. Það mætti greiða þeim einhverja þóknun fyrir þetta, en það yrði aldrei mikið. Ég hefi við 1. umr. þessa máls bent á það, hve mikið öryggi er í því falið, fyrir skipin að hafa loftskeytastöð. Ef skip verður fyrir áfalli í hafi, er ekkert eins fullkomið og vænlegt til bjargar og loftskeyti. Ég get í þessu sambandi bent á dæmi, er einn íslenzkur togari missti skrúfuna milli Færeyja og Íslands og gat með hjálp loftskeytanna náð í hjálp, en hefði ella án efa lent í hrakningum.

Ótal fleiri dæmi mætti nefna í þessa átt, en ég skal eigi að svo komnu fara lengra út í málið. Í frv. var upphaflega gert ráð fyrir óþarflega sterkri stöð í skipin, en það hefir nú verið fært til hins réttara með brtt. meiri hl. n.