07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (4823)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Magnús Guðmundsson:

Ég skal byrja á því að lýsa því yfir, að mér finnst alveg vanta grundvöllinn í þessu máli. Hér vantar alveg upplýsingar eða vitneskju um rekstrarafkomu þessara skipa, sem leggja á talsverðar byrðar á. Sum þeirra eru nýlega keypt, og veit enginn. hvernig þau muni bera sig. Mér finnst því, að réttara hefði verið að bíða eftir reynslu í því efni, áður en farið er að hlaða á þessa útgerð nýjum gjöldum.

Ég sé ekki, að meiri hl. sjútvn. hafi að neinu leyti getað hrakið röksemdir minni hl. n. í þessu máli. Það hefir verið upplýst, að munurinn á kaupgjaldi skipshafnar á einn þessu skipi, miðað við kaupgjald á samskonar skipum norskum, nemur 23 þús. kr. á ári. Svo á að bæta við þennan kostnað um 7000 kr., eftir upplýsingum landssímastjóra um kostnað við loftskeytatæki, að viðbættum talútbúnaði og klefa fyrir stöðina, eins og hv. þm. N.-Ísf. hefir sýnt fram á. Svo sé ég ekki betur eftir 1. gr. frv. en að talsverður árlegur kostnaður verði af stöðinni, þar sem ekki er tekið grynnra í árinni en það, að við stöðina skuli starfa a. m. k. einn loftskeytamaður. Maður getur eftir 1. gr. búizt við, að fljótlega komi fram krafa um að hafa þá tvo. Ég get því ekki betur séð en að rök hv. minni hl. n. séu fyllilega réttmæt.

Viðvíkjandi samkeppni þessara skipa við Norðmenn vita allir, að hún er mikil og erfið. Ég ætla, að allir sjái, hvílíkur geysimunur er á afstöðu þessara keppinauta, þar sem íslenzku skipin verða að greiða í mannakaupinu einu 23 þús. kr. meira á ári á hverju skipi. Það er ekki hægt fyrir íslenzku skipin að krefjast hærri flutningagjalda vegna þessa háa kaups. Þeir, sem selja fisk til útlanda, taka auðvitað fragtina þar, sem hún er ódýrust, og útgerðin hér ber sig ekki svo vel, að hægt sé að taka hærri fragt af útfluttum íslenzkum fiski heldur en Norðmenn gera. Frsm. meiri hl. sjútvn. mælti talsvert hörðum orðum í garð Norðmanna, en ég býst ekki við, að það hafi mikil áhrif á fragtina hjá þeim, enda er það ekki nema eðlilegt, að þeir geti boðið lægri flutningsgjöld, þar sem þeir hafa svo miklu minni kostnað við rekstur skipanna. Hv. frsm. meiri hl. var að tala um það, að við ættum að feta í spor Englendinga og láta nefnd athuga flutningamálin. Ég verð nú að segja, að mér finnst það dálítið sitt hvað hér og þar. Englendingar eiga stærsta fragtskipaflota í heimi, en við þann minnsta. Slíkar bollaleggingar eru bara hlægilegar. Það er gott að heyra, að íslenzku fragtskipin eru betri en þau útlendu, en það hefir lítil áhrif í samkeppninni. Sá, sem sendir flutning út, fær hann vátryggðan, og þar af leiðandi bættan, ef flutningurinn skemmist. Honum má því nokkuð í léttu rúmi liggja, hvort flutningurinn skemmist eða ekki, fyrst hann fær sína borgun. Sé svo, að skip sé ekki talið fært til að flytja vörur án þess að þær geti skemmzt, er tekið veð fyrir. Það var eitt, sem frsm. meiri hl. sagði, að ekki væri hætt við því, að eigendur skipanna hættu að gera þau út, þó þetta frv. væri samþ. Það getur vel verið, en einhversstaðar hlýtur markalínan að vera fyrir því, hvað útgerðin getur borið. Og enginn getur búizt við því, að eigendur skipanna haldi áfram að gera þau út, ef um engan hagnað er að ræða, heldur sífellt tap. Þess vegna álít ég það óvarlegt, meðan enginn veit, hvernig þessi atvinnuvegur ber sig, að vera að auka stórlega álögur á honum.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að því hefði oft verið slegið fram hér á Alþingi, þegar rætt hefði verið um nýjar álögur á stórútgerðina, að þær rækju til þess, að skipin, togararnir, yrðu seldir úr landi. En hvað hefir skeð? Hér hafa verið sett lög um að banna að selja togara úr landi. Meðan ég var í stjórn var oft farið fram á það að fá að selja togara úr landi, og af hverju var það? Það er eftirtektarvert, að á hverju ári heltast þetta einn eða tveir íslenzkir togarar úr lestinni, þ. e. þeir stranda, en enginn kemur í staðinn. Það sýnir, að togaraútgerðin þolir ekki þær álögur, sem hún hefir við að búa. Hún er að gefast upp. (JBald: Það var keyptur togari í Hafnarfirði móti vilja hv. þm. sem ráðh.). Hv. þm. veit víst lítið um minn vilja í því efni: ég gaf þó sem ráðh. leyfi til þess, að hann yrði keyptur. (JBald: Já, loksins). Annars held ég, að þessi blessaði einmana stjórnarvörður, sem situr þarna hinumegin (hv. 4. landsk.), ætti ekki að vera að tala um. hvað aðrir hugsa, því að hann getur ekkert vitað um það. Honum væri nær að segja, hvort hann sem bankastjóri er ekki sammála mér í þessu máli. Það liggur ekkert fyrir um það, hver er rekstrarútkoma þessara skipa. Því álít ég, að ekki sé vert að auka við gjöld þeirra.