07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (4824)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Það má vera hv. þdm. nokkurnveginn ljóst, að mikið er í húfi, ef þessi útgerð stöðvast. Ég hefi upplýst, að þessi útgerð hefir þurft að borga 23 þús. kr. fyrir mannahald á hverju skipi fram yfir það, sem keppinautarnir þurfa að borga, og er þá augljóst, að varhugavert er að bæta þar við aukaútgjöldum. Hér er um að ræða útgerð, sem ekki er sambærileg við samskonar útgerð hjá öðrum þjóðum. Þó væri ekki nema sjálfsagt, ef aðrar þjóðir hefðu sett loftskeytastöðvar á samsvarandi skipum, að það væri einnig gert hér, en það hafa þær ekki gert, og þá er bara hættulegt að gera það hér og auka með því erfiðleika okkar skipa, sem aðrar þjóðir hlífast við að gera hjá sér. Það væri hættulegt, ef þessi útgerð lenti í það, að geta ekki innt af höndum þau löglegu gjöld, sem á henni hvíla, því þá yrði ekkert annað ráð fyrir hendi en að selja skipin. Það væri þjóðhagslega skoðað vítavert gáleysi að vera að halda uppi dýrari flutningum með þessum skipum heldur en svo, að útgerðin geti borið flutningana. Og þá gæti farið svo, að það borgaði sig betur hreint og beint að gefa skipin en að reka þau á þann hátt.

Hv. frsm. meiri hl. taldi mest öryggi fyrir skipin að fá loftskeytastöðvar. En ég vil spyrja: Hver er reynslan í þessum efnum? Hún er sú, að nálega allir togarar, sem farizt hafa hér við land, hafa strandað við landtöku, og svo er það og með það eina íslenzka flutningaskip, sem hér hefir strandað. Öll hin stærri skip hafa farizt þannig, nema Apríl og Leifur heppni, sem fórst í mikla mannskaðaveðrinu 1924. Það er því við landtöku, sem langsamlega flestir skipskaðar hér hafa orðið. Hin mesta öryggisráðstöfun fyrir þessi skip væri því sú, að þau fengju dýptarmæli, og þó hann kosti nokkuð mikið, álíka mikið og loftskeytastöð, þá munar mestu á því, að sá kostnaður verður aðeins í eitt skipti fyrir öll, en í hinu tilfellinu er um mikinn árlegan kostnað að ræða, sem skiljanlega hefir mest að segja í þessu efni. Það er hverfandi fyrir útgerðina að leggja út nokkra upphæð í eitt skipti fyrir öll hjá því sem að þurfa að standa straum af miklum árlegum kostnaði.

Hv. frsm. sagði, að það væri óeðlilegt og ólíklegt að skipin bæru sig ekki vel. En ég vil spyrja: Hvað er óeðlilegt við það, þó svo væri ekki? Hér gildir vitanlega það, að sá, sem siglir ódýrast, stendur sig bezt. Nú liggja uppi milljónir skipa í heiminum atvinnulaus. Þau skip, sem mestan kostnað hafa, verða undir í samkeppninni. Norðmenn sjá, að það er betra að hafa kaupið lægra til þess að geta veitt sem flestum atvinnu. Bretar verða aftur að láta sín skip liggja uppi. Hvað er að gerast í heiminum? Japanar eru að leggja undir sig eina iðngreinina eftir aðra, vegna þess að þeir hafa ódýrari framleiðslumöguleika en aðrar þjóðir. (SÁÓ: Þá er ekki annað en að loka milliríkjaverzluninni). Já, þjóðirnar gera það að talsverðu leyti í bili. — en hvað lengi verður það fært? Auk þess er það svo, að heppilegast væri, að hver vara væri framleidd þar, sem bezt eru skilyrðin. Ég skal viðurkenna, að þegar aðrar þjóðir hafa fyrirskipað loftskeytastöðvar á sín flutningaskip, þá er sjálfsagt, að við gerum það einnig. En meðan þær gera það ekki, þá hjálpum við aðeins keppinautunum með því að leggja slíkar byrðar á okkar útgerð. Ég hefi bent á það, að meira öryggi væri fyrir skipin að fá dýptarmæli heldur en loftskeytastöð, af því að langsamlega mest slysahætta er í sambandi við landtöku. Þess vegna ætti fremur að setja dýptarmæla á flutningaskipin en loftskeytastöðvar, ef auka á öryggi þeirra. Að skip fái aukaborgun fyrir fljóta siglingu milli landa, getur vel verið, en það er nú það, sem tæplega borgar sig fyrir þau, því með því að auka hraða skipanna úr 10 mílum í 12 eykst kolaeyðslan um 1/3 hluta. Slíkt mun því í flestum tilfellum ekki borga sig. Um norsku flutningaskipin er það að segja, að þau eru mörg ágætlega fallin til flutninga, og sama er að segja um þá menn, sem þeim stjórna og á þeim vinna, að þeir gera allt til þess, að vörur þær, er þeir flytja, komi sem bezt fram. Þeir eru því sízt eftirbátar í þeim efnum. Þó skal ég viðurkenna það að íslenzku skipstjórarnir og stýrimennirnir gera einnig allt, sem þeir geta í þessu efni.

Meðan svo er ástatt sem nú er, að okkar skip hafa yfir 2000 kr. aukakostnað á ári fram yfir norsku skipin, útgjöld, sem okkar skip kannske standa undir, eða a. m. k. væri vonandi, að þau gætu staðizt, þá er ekki nærgætnislegt að heimta það, að þessi skip bæti við sig dýrum loftskeytastöðvum. Ég held, að menn megi þakka fyrir, ef þessi útgerð fellur ekki í rústir, án þess að leikur sé gerður til þess, að svo fari.