07.11.1934
Efri deild: 32. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (4827)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Magnús Guðmundsson:

Ég skil vel, að hv. frsm. meiri hl. n. getur ekki bent á leið til þess, að komizt verði hjá að taka sérstakan loftskeytamann á þessi flutningaskip, ef frv. þetta verður samþ. Það er engin leið, þótt hv. þm. bendi á, að skipstjóri eða stýrimaður gætu setzt á skólabekkinn og farið að læra loftskeytafræði. Þeir bara gera það aldrei, nema þeir fái full skipstjóra- eða stýrimannslaun á meðan. Landssímastjóri segir, að engin ákvæði í alþjóðareglum eða íslenzkum sérreglum séu því til fyrirstöðu, að yfirmenn geti jafnframt verið loftskeytamenn. Nei, það eru engar sérstakar reglur, sem banna þetta, en fagsamböndin gætu bannað það. Í þessu sambandi hefir verið bent á, að vel geti í framtíðinni orðið hækkun á flutningsgjaldi, og hækkunin geti aftur orðið til þess að valda breytingu á alþjóðasamþykktum þeim, sem gilda um útbúnað þessara skipa. En ég held, að réttara sé að bíða og sjá til, hvort nokkur hækkun verður á fragtinni, og hvort alþjóðasamþykktum verður breytt. Þessi nýja kvöð getur riðið baggamuninn fyrir útgerðarmönnum, sem rétt berjast í bökkum. — Hv. þm. taldi, að þeir, sem vilja selja skip úr landi, mundu vilja kaupa önnur í staðinn. Ég hefi ekki orðið var við þessa löngun til þess að kaupa togara. Þeir einir, sem gætu það, eru þeir, sem missa togara sína sæmilega vátryggða, en þeir hafa ekki gert það.

Hv. þm. talaði um mannafækkun og kauphækkun. Ég hefi ekki heyrt neinn orða það annan. Hv. 1. þm. Reykv. sagði aðeins, að þeir tímar gætu komið, að sjómenn yrðu að velja milli lægra kaups og þess, að skipin yrðu seld úr landi, ef haldið er áfram á þessari braut, að íþyngja útveginum stöðugt. — Ég skal ekki neita því, sem hv. þm. sagði um alþjóðareglurnar, en ég skil ekki, hvernig hv. þm. hugsar sér, að við getum tekið okkur út úr með þessi 5 skip okkar og lagt á þau hærra gjald en nokkursstaðar er talið fært í heiminum. Hér er aðeins vísir að útgerð með flutningaskip. Og þessi vísir á við mjög erfið kjör að búa. Og nú á að bæta ofan á annan kostnað miklum árlegum útgjöldum á hvert skip, vegna loftskeytatækja, sem erlend skip af sömu stærð þurfa ekki að hafa. Þetta getur hæglega orðið til þess að kæfa þessa viðleitni í fæðingunni, og þá væri sannarlega betur heima setið en af stað farið.