23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (4838)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Flm. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það er út af aths. hv. þm. N.-Ísf. um að breyta fyrirsögn frv., aðallega í tilefni af klausu, sem ég las upp úr umsögn Sig. búnaðarmálastjóra. En það, sem Sig. er að benda þar á, er aðeins það, að við eigum fyrst og fremst að nota innlendu fóðurefnin, eftir því sem hægt er, og að við höfum flutt of mikið út af þeim og keypt að óþörfu útlendar vörur í staðinn. Þetta vil ég tryggja að gert sé. En það þarf að rannsaka á vísindalegan hátt, hvað við höfum af góðum fóðurefnum. hvernig þau verði blönduð, svo að þau komi að sem beztum notum, o. s. frv. Bændur munu vissulega leggja mikið upp úr því, ef hægt væri að tryggja, að nægar fóðurbirgðir væru alltaf fyrirliggjandi í landinu, t. d. ef hafís lokaði siglingum til Norðurlands, sem skeð hefir í manna minnum, og getur því komið fyrir aftur. (ÞÞ: Þá er ekki nóg að eiga birgðir í Rvík). Alveg rétt. Það er ekki nóg að eiga birgðir í Rvík, enda mun ég fúslega taka á móti hverri þeirri brtt., sem ekki spillir tilgangi frv. Margir hv. fyrrv. þm., sem hafa borið hag bænda fyrir brjósti, hafa bent á nauðsyn þess, að ríkið hlutaðist til um, að ætíð væru nægar fóðurbirgðir fyrirliggjandi á sem flestum höfnum landsins. Má þar fyrstan nefna Pétur heit. Jónsson á Gautlöndum. Það var líka mjög eðlilegt, að þær raddir kæmu þar að norðan, sem sífelld hætta er á, að hafís loki öllum höfnum og hindri þangað siglingar. Þetta er líka ein aðalástæðan fyrir frv. Þó að við höfum ekki enn flutt út önnur fóðurefni en síldarmjöl, býst ég við, að Sig. Sig. hafi rétt fyrir sér, að við eigum gnægð þeirra efna í landinu, ef við aðeins lærum að notfæra þau.