23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í C-deild Alþingistíðinda. (4845)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. skýrir sig að mestu leyti sjálft, svo að ég þarf ekki að halda langa framsöguræðu.

Þegar ríkið keypti þessar 5 jarðir í Ölfusinu, var það meiningin, að þær yrðu notaðar til mjög margs fyrir ríkið, en ekki ætlazt til, að þær yrðu látnar út í smápörtum til margra manna. Nú hafa þessi mál farið svo, að sá flokkur, sem alltaf stóð á móti þessum kaupum, hefir nú haft á hendi yfirstjórn á framkvæmd þessara mála. Og ég þykist vita, að það sé af þessum mismunandi skoðunum, að þessi flokkur hefir nú nokkuð breytt um og gert þrjá leigusamninga, sem hér fylgja með, og er þar einstökum mönnum fengið í hendur það land, sem það opinbera má sízt missa, ef á að nota þessa eign til þess, sem upphaflega var ætlazt til.

Frv. lýtur eingöngu að því að skera úr, hvor hugsunarhátturinn eigi að ráða. Ef sá hugsunarháttur á að ríkja, sem bar uppi hugmyndina um jarðakaupin, þá á að taka aftur þessa bletti, og þá verður ennfremur að tryggja það, að sá maður, sem nú hefir Reykjakotið, vilji sleppa því, þegar ríkið þarf þess með. Ég tel það fremur dyggð þess góða manns, sem fyrrv. stj. leigði Reykjakotið, heldur en dyggð þess manns, sem leigði það, að það mun vera hægt að fá þennan leigurétt hvenær sem er, gegn því, að af honum verði keypt þau mannvirki, sem hann hefir gert þar, en þau eru öll hentug og skynsamleg fyrir þennan stað í framtíðinni.

Sú reynsla, sem nú er fengin, sýnir það, að stjórnirnar láta mismunandi skoðanir ráða aðgerðum, sem geta stórum spillt fyrir skynsamlegri notkun þessa lands í framtíðinni. Þess vegna er hér farið fram á að fá þessar eignir í hendur stjórnskipaðri nefnd, og það þeirri nefnd, sem á að hafa á hendi yfirumsjón með öllum spítalarekstri hér, og það er í samræmi við það, sem upphaflega var á bak við þessi jarðakaup, sem sé að nota jarðirnar í þágu heilbrigðismála og svo uppeldismála, og þó sér í lagi í sambandi við landsspítalann. Þetta hefir komið fram hér áður, því að 1932 flutti ég frv. um að fela yfirstjórn landsspítalans umsjón með þessum eignum, þó að ég væri þá í ríkisstj. Frv. dagaði þá uppi í þessari d., og af því að það mætti mótstöðu þeirra aðilja, sem nú hafa gert þessa samninga, þá er nú komið sem komið er.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar. Mergurinn málsins er, hvort þingið vill skipta þessu niður í smábletti handa einstökum mönnum, — það er annar hugsunarhátturinn —, hinn er sá, að banna að láta burt ræktanlega landið, svo að þegar ríkið þarf að byggja þarna opinberar stofnanir síðar meir, þá þurfi það ekki að kaupa aftur dýru verði það land, sem búið er að afhenda.

Ég vil aðeins benda á það, að í þessu landi eru 100 jarðhitaaugu, eftir því sem Þorkell Þorkelsson hefir rannsakað, og eru því þarna miklir möguleikur fyrir það opinbera til ræktunar og ýmiskonar tilrauna, og þá ekki síður fyrir mannúðar- og uppeldisstofnanir.

Ég legg svo til, ef frv. sleppur gegnum þessa 1. umr., þá verði því vísað til allshn.