23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (4846)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Magnús Guðmundsson:

Ég hélt, að hv. þm. S.-Þ. ætlaði að verða miklu hvassyrtari en hann hefir nú orðið, svo að ég tel mér skylt að vera hógvær eins og hann.

Hv. þm. lýsti mjög vel tilgangi þessa frv., þegar hann sagðist vilja koma í veg fyrir, að mismunandi stjórnir gætu haft áhrif á stjórn þessara eigna. Það vakir fyrir hv. þm., að búa svo um, að það, sem hann vill, verði framkvæmt hér, hvort sem hann er við stj. eða ekki. (JJ: Það fer nú eftir því, hvernig n. verður skipuð). Já, það er annað mál, hvort það heppnast, en þetta er hans tilgangur. Ef frv. kemur hér fleiri umr., þá getur verið, að borið verði saman, hvað ég hefi gert og hvað hann hefir gert í þessum efnum. Ég vil nú aðeins minna á það, að það eru ekki nema 2—3 dagar síðan landlæknir sagði í fjvn., að hann gæti ekki notað þetta hæli á Reykjum til þess, sem hann hefði ætlazt til. Landlæknir spurði við þetta tækifæri hv. þm. S.-Þ., hvort hann gæti bent sér á ráð til þess, og hann sagðist ekki gefa það að svo stöddu. Það getur verið, að hann ætli að koma með það ráð næst þegar hann kemur í stj., en það getur kannske dregizt, að hann komist í stjórn.

Hann var — þó með vægum orðum — að ámæla mér fyrir að hafa leigt Sigurði Sigurðssyni búnaðarmálastjóra bletti úr landi Reykjatorfunnar og byggt Reykjakotið. En það eru lög á landi hér, að þeir, sem eiga jarðir, eru skyldugir að byggja þær til lífstíðar. En þrátt fyrir það er ábúandinn í Reykjakoti fús til að fara hvenær sem er, svo að lífstíðarbyggingin kemur ekki að sök. Ég skal ekkert um það deila, hvort það er fyrir mína dyggð eða ábúandans, en svo mikið er víst, að það er ekki fyrir dyggð hv. þm. S.-Þ., að svo er.

Hv. þm. vill láta taka þennan leigða blett af Sigurði búnaðarmálastjóra. Þetta land er um 3,7 hektarar. Það er auðsætt, að hv. þm. sér eftir því, að honum var leigt þetta land, en ég geri það ekki. Svo mikið hefir Sigurður búnaðarmálastjóri gert fyrir íslenzkan landbúnað, að (það virðist vera það minnsta, sem ríkið getur gert fyrir hann til endurgjalds hans starfi, að leigja honum þessa spildu, sem er ekki stærri en lítið meðaltún, fyrir venjulegt gjald. En fyrst hv. þm. þykir svo óforsvaranlegt að leigja Sigurði Sigurðssyni þennan litla blett, þar sem enginn jarðhiti er, þá vil ég spyrja hann að því, hvort það hafi þá verið rétt, þegar hann leyfði manninum, sem seldi ríkissjóði Reykjatorfuna, afnot af annari spildu með miklum jarðhita.

Á þessu svæði eru ennfremur nokkrir sumarbústaðir, og það er þá víst meiningin að reka menn burt með þá líka. Ég veit ekki, hvað hlutaðeigandi ráðh. segir um þetta. Hæstv. stj. sést hér sjaldan í d., en það er kannske sama og að hún tali, þegar hv. þm. S.-Þ. tekur til máls, og að það sé þess vegna, sem ráðh. sjást hér varla nema þegar smalað er til atkvgr.

Annars lít ég svo á, að það sé rangt af ríkinu að keppa við bændur um framleiðslu á mjólk og öðrum vörum þarna eystra. Það var farið fram á það á þingi 1933, hvort Alþ. vildi ekki veita styrk til að byggja hús á þessum stað, en fjvn. svaraði því, að hún vildi ekki leggja fram fé til að stofna til samkeppni við bændur um framleiðslu á mjólk. En þegar svo er, að ríkið vill ekki byggja þarna upp, þá er ekki um annað að gera en að nota landið á annan hátt. Það getur verið, að hv. þm. S.-Þ. vilji láta landið vera ónotað þangað til hann kemur í stjórn, en verið getur, að þá þurfi lengi að bíða.