13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (4853)

88. mál, yfirstjórn nokkurra ríkiseigna í Ölfusi

Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Það er nú orðið nokkuð langt síðan þessu máli var lokið í allshn., og gat n. ekki orðið sammála um það, en þó hefir minni hl. ekkert látið frá sér heyra, og hygg ég, að hann sé því andvígur, að málið nái fram að ganga, en meiri hl. hefir afgr. málið í því formi, sem sjá má á þskj. 594.

Um málið sjálft skal ég ekki fjölyrða mikið. Meiri hl. n. komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri, að um þessar eignir ríkissjóðs verði skipuð sérstök yfirstjórn, eins og farið er fram á í l. gr. frv., og gerði því enga brtt. í því efni. En við 2. gr. frv. hefir meiri hl. leyft sér að koma með nokkra viðbót, þess efnis, að heimilt sé ýmsum bæjarfélögum og allsherjarsamtökum verkamanna að hafa þarna sumarbústaði og koma upp nauðsynlegum leikvöllum fyrir þá, sem dvelja þar sér til heilsubótar og hressingar. Þessi staður er talinn hafa mjög góð skilyrði til að veita mönnum hressingu að sumarlagi, vegna þess að þarna er sólríkt og heilnæmt loftslag, og þá ekki sízt vegna hveranna, sem þarna eru og taldir eru mjög heilnæmir, sérstaklega fyrir veiklað fólk. Þess vegna taldi meiri hl. nauðsynlegt, að þessi heimild kæmist inn í l., svo þetta væri ekki útilokað, enda mun landrými vera nóg til þess að þessu verði fyrir komið, og hefir þegar bólað á því, að einstakir menn kæmu sér þarna upp sumarbústöðum til hressingar.

Þá leyfði meiri hl. sér að bera fram brtt. við 3. gr. frv., og hefir þar tekið upp framkomna till. í þessu máli frá hv. flm. (JJ), en bætir því við, að það skuli vera á valdi þeirrar nefndar, sem ætlazt er til, að hafi umsjón með þessum eignum ríkisins, hvort hún beitir eignarnámsheimildinni eða ekki og á hvaða tíma það skuli vera gert. Þarna hafa nú 2 menn öðlazt leiguréttindi, Sigurður búnaðarmálastjóri, sem hefir fengið 4½ ha. lands leigt til 75 ára, og Magnús Kristjánsson, sem mér er ekki kunnugt um, hvað hefir leigt til langs tíma, en hann mun hafa lýst því yfir, að hann muni af fúsum vilja láta af hendi sín leiguréttindi gegn greiðslu á því, sem hann hefir til kostað þarna. Um Sigurð búnaðarmálastjóra er það að segja, að hann hefir komið upp ýmsum tilraunum á landi þessu, og eru það ýmsar nýjungar, sem hann hefir færzt í fang, t. d. ræktun á ýmsum jurtum, sem þrífast í heitari löndum en við eigum við að búa. Meiri hl. lítur svo á, að þessar tilraunir séu allmerkilegar og óskar þess, að sem mestur árangur gæti orðið af þeim. M. a. hafa þarna verið gerðar tilraunir með að rækta tóbaksjurtir. Hvort sem það kann nú að þykja þarflegt eða ekki, þá er víst um það, að til landsins er flutt mikið af þeirri jurt, þ. e. a. s. í vindlingum og sígarettum. Og hvað sem annars um þessar tilraunir má segja, þá lítur meiri hl. þannig á, þar sem þessi maður hefir mikinn áhuga á þessum tilraunum sínum, að ekki sé rétt meðan hans nýtur við að kippa af honum þeirri ánægju, sem hann kann að hafa við þessar tilraunir sínar. Meiri hl. gerir því ráð fyrir, að þessi réttindi, sem hann hefir öðlazt þarna með samningum við fyrrv. stj., séu ekki framseljanleg neinum öðrum og geti ekki heldur gengið í erfðir að honum látnum. — Þetta er aðalkjarninn í brtt. okkar í meiri hl. við þetta frv. En ég geri nú ekki ráð fyrir þrátt fyrir allt, að það vinnist tími til þess að láta þetta mál ganga fram á þinginu, þar sem svo er orðið áliðið þingtímans. En eins og sjá má á viðbótarskjali því, sem prentað er með nál. meiri hl., sem er ýmiskonar fróðleikur frá búnaðarmálastjóranum um þessar eignir ríkisins, telur hann, að það þyrfti á ýmsan hátt fyllri löggjöf um þessar jarðeignir heldur en gert er ráð fyrir með þessu frv., og ég hefi orðið var við, að ýmsir menn, sem þarna eru kunnugir, telja, að þetta muni vera á ýmsan hátt rétt. því hér sé um svo merkilegan stað að ræða með miklum framtíðarskilyrðum. En þar sem ég geri ekki ráð fyrir, að ríkið muni á næstu árum gera þær stórfelldu framkvæmdir, sem þarna er mögulegt að gera, þá sé ég ekki neitt tapað við það, þó löggjöfin nái ekki lengra en hér er ætlazt til að þessu sinni, og tel ég því, þó ég geti þessara radda, sem um þetta mál hafa komið, að engin ástæða sé til þess að hefta framgang þessa máls eins og það liggur fyrir Alþ. nú.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál á þessu stigi og býst ekki við að taka aftur til máls, nema sérstakt tilefni gefist til þess. En ég skal taka það fram sem mína skoðun, að ég tel það hafa verið vel ráðið, þegar ríkið tryggði sér eignarrétt á þessu landi, því það er alltaf að koma betur og betur í ljós, hvaða verðmæti þarna eru fólgin og hversu mikil framtíðarskilyrði þarna geta verið fyrir ríkið í náinni framtíð.