03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

Kosning til efrideildar

Jakob Möller:

Ég hefi beint til hæstv. forseta áskorun tuttugu þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Er skorað á hann samkv. 45. gr. þingskapa að leggja úrskurð sinn frá í gær undir atkvæði þingsins.

Auk forseta hefir líka hv. 2. þm. Reykv. reynt að halda því fram, að forsetaúrskurðir væru aldrei lagðir undir atkvæði, væri ekkert fordæmi fyrir því. Ég benti á fordæmi, sem staðfestir réttinn til að krefjast slíks og viðurkennir í raun og veru, að um skyldu sé að ræða, nema í því einstaka tilfelli, sem ég sagði frá. Auk þess ber svo vel við, að það er beinlínis ákveðið í 45. gr. þingskapa, að þingdeild eða sameinað Alþingi geti breytt ákvörðun forseta, þegar þess er krafizt af tilteknum fjölda þingmanna, þriggja í Ed., sex í Nd. og níu í Sþ. Það er ekki hægt að líta svo á, að þetta ákvæði eigi við það einstaka tilfelli, sem um ræðir í gr., því að ef það er réttur þm. í Sþ. og deildum að krefjast breytinga á ákvörðunum forseta viðvíkjandi því eina atriði, sem í sjálfu sér er miklu þýðingarminna og óverulegra en það, sem hér er um að ræða, þá liggur í augum uppi, að þingið hefir sama rétt til að gera breytingar á slíkum úrskurði, sem hæstv. forseti gerði í gær. Enda staðhæfi ég, að það er órofin þingvenja, að slíkir úrskurðir séu bornir undir atkvæði. Það nægir ekki, eins og hv. 2. þm. Reykv. sló fram, að fordæmi sé fyrir að neita um slíkt. Hann hefir ekki nefnt neitt, og hann getur það ekki. Hinsvegar gat ég um fordæmi, þar sem slík atkvæðagreiðsla var látin fara fram.

Vænti ég þess, að hæstv. forseti verði við þeirri kröfu, sem fram er borin.