17.11.1934
Efri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (4928)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Bernharð Stefánsson:

Eins og grg. frv. ber með sér, er það flutt samkv. beiðni bæjarstj. Siglufjarðarkaupstaðar.

Það eru ekki mörg nýmæli í frv., en engan þarf að furða, þótt lagt sé fram frv. um hafnarlög Siglufjarðar, því að þau lög, sem bærinn á nú við að búa, eru frá 1915, eða m. ö. o. frá þeim tíma, þegar Siglufjörður var aðeins hreppur innan Eyjafjarðarsýslu. Vitanlega hafa margar og miklar breytingar orðið síðan á atvinnuháttum þar, og fólksfjölgun hefir orðið þar mikil síðan.

Ákvæðið í 1. gr. frv. um tillag ríkissjóðs til hafnarbóta á Siglufirði er shlj. gildandi fjárl. og fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu. Ég vildi samt skjóta því til þeirrar n., sem fær málið til athugunar, að ná tali af vitamálaskrifstofunni um þessi ákvæði, þar sem nýr samningur mun standa til viðvíkjandi þessum mannvirkjum, sem fyrirhuguð eru á Siglufirði, sem kynni að gera það nauðsynlegt, að þessu ákvæði sé breytt að einhverju leyti. — Ennfremur skal ég geta þess, að bæjarfógetinn á Siglufirði er annaðhvort á leiðinni hingað til borgarinnar eða jafnvel kominn, svo að hv. n. getur náð tali af honum um málið.

Það er ekki ástæða til þess að orðlengja frekar um þetta mál við 1. umr. Ég vona, að það nái fram að ganga, og vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til hv. sjútvn.