28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í C-deild Alþingistíðinda. (4931)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Bernharð Stefánsson:

Ég þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli. — Út af brtt. þeirri, sem n. ber fram, vil ég segja það, að mér finnst hún eðlileg og við flm. frv. föllumst á hana. Það er ekkert við því að segja, þó þessi heimild til hækkunar hafnargjalda sé tímabundin og fari eftir almennum l., ef þau verða sett um þetta atriði. Það er auðvitað dálítið hæpin braut, að leyfa bæjarsjóðum að tolla vöru, en eins og hv. frsm. n. gat um, hefir Siglufjörður sérstöðu. Hann benti á tjónið, sem þar hefir orðið. Það má líka benda á, að því hagar svo til, að þar er mjög lítil verzlun við nágrennið, eða við önnur héruð, og það er dálítið annað að leyfa þetta bæjum, sem hafa mikla verzlun, því þá hafa, þeir heimild til að skattleggja fleiri menn en borgara þess bæjarfélags. Ég vona svo, að þetta mál gangi greiðlega gegnum þingið.