28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (4934)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Bernharð Stefánsson:

Út af fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf. vil ég taka það fram, að við flm. þessa frv. lítum svo á, að hér sé ekki um neina viðbót að ræða, heldur er í 1. gr. frv. það tekið upp, sem komið er í fjárl. Annars held ég, að það sé ekki einsdæmi, eins og hv. þm. virtist álíta, ákvæðið í hafnarlögum um framlag ríkissjóðs. (MG: Það sagði ég aldrei).

Ég skal ekki blanda mér inn í það, sem hv. 1. þm. Skagf. var að ræða um tekju- og eignarskattshækkun í sambandi við bæjargjöld. En í því sambandi vil ég þó benda á það, að ég hygg, að það sé önnur orsök, sem má sín miklu meira í þessu tilfelli, en það er eins og kunnugt er, að stærsti atvinnureksturinn á Siglufirði er ríkisrekstur, eins og menn vita, og allur sá rekstur er sama sem útsvarsfrjáls. Þá má einnig benda á þá miklu skaða, sem hafa orðið þar nyrðra í haust, sem óhjákvæmilega verður að bæta á einhvern hátt. En það getur ekki verið ástæðan til þess, að Siglufjörður biður um þessa heimild, þó að fyrir þessu þingi liggi frv. um tekju- og eignarskatt, því að það er ekki farið að verka neitt enn, og ég efast um, að bæjarstj. Siglufjarðar hafi verið kunnugt um það, þegar hún bað um, að þessi l. væru sett.