28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (4936)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Magnús Guðmundsson:

Ég heyri, að þessar 50 þús., sem hér um ræðir, séu þær sömu og ræðir um í fjárlfrv., og ég er þá ánægður með það. En ég verð að segja, að mér finnst óþarfi að lögfesta þetta á tveimur stöðum, en ef hv. flm. vilja éta smjör við smjöri í þessu, þá hefi ég ekkert við það að athuga.

Hv. 1. þm. Eyf. hélt, að beiðnin um vörutoll handa bæjarsjóði Siglufjarðar væri komin fram vegna þess, að ríkið borgaði svo lítið útsvar á Siglufirði. Ég held, að það sé ekki, því að það er ekki svo lítið, sem það borgar þar. Ég hygg, að Siglufjörður græði talsvert á atvinnurekstri ríkisins þar, en tapi ekki.

Hann segir, að þetta geti ekki stafað af þeim tekjuskattsauka, sem nú liggur hér fyrir þinginu, því að þeir hafi ekki einu sinni vitað um hann, þegar farið var fram á þessa heimild. En það er ekki í fyrsta skipti, sem þessi skattur er hækkaður. Hann hefir einmitt verið hækkaður mikið nú á undanförnum árum, fyrst um 25%, og síðan tvisvar sinnum um 40%, og nú er það meiningin að halda áfram með mikla hækkun. Ástæðan hygg ég því, að sé sú, sem ég benti á, að ríkið er að seilast inn á tekjusvið Siglufjarðarkaupstaðar eins og annara.

Þá segir hann, að þetta ákvæði hér um það, að innheimta toll af öllum vörum, sem fara um höfnina á Siglufirði, komi ekki við aðra, af því að aðrir verzli þar ekki. Þetta er alveg rangt, því að t. d. síldveiðendur hvaðan sem er af landinu verzla þarna. Auk þess eru þó 2—3 hreppar úr mínu kjördæmi, sem verzla þar mikið, og nú á að leggja skatt á þessa hreppa. En mér dettur samt ekki í hug að vera á móti þessu, því að ég skil þessa nauðsyn Siglfirðinga, en ég vildi bara benda á, að svona er þetta.

Annars þarf ég ekki að deila um þetta við hv. 1. þm. Eyf., því að ég ætla að fylgja frv. eins og það er. En ég vildi nota þetta tækifæri til að sýna fram á, að afleiðingin af tekjuskattshækkuninni er sú, að það verður að láta bæjar- og síðan sveitarfélögin fá leyfi til að taka tolla af vörum.