28.11.1934
Efri deild: 49. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (4940)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Af því að það kemur ekki mjög oft fyrir, að hv. þm. S.-Þ. tekur í sama strenginn og ég, vil ég nú færa honum þakkir fyrir hans miklu velvild í minn garð. Mér þykir vænt um að heyra, að orð mín hafa nú fengið hljómgrunn hjá honum, þegar ég benti á það, hversu varhugaverð þessi leið væri fyrir viðkomandi verzlunarhéruð, og þó að hann benti ekki á það sérstaklega, þá vænti ég, að svo verði hjá fleirum.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði um ákvæði 1. gr., þá hefi ég bent á, að þetta ákvæði væri þegar í fjárl., og vil ég þar taka undir það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að þar þurfi ekki að eta smjör við smjöri. (BSt: Þetta var gert á Akranesi). Þeir fengu pappírsgagnið fyrst og framkvæmdirnar ekki fyrr en á eftir, öfugt við það, sem Siglfirðingar vilja fá. Ég áskil mér því rétt til þess að flytja við 3. umr. brtt. við síðari málsgr. 3. gr., því að ég tel óviðeigandi, að opinber sjóður leggi fram mikið fé í þessu skyni, án þess að bætur komi fyrir. Að fara slíka leið sem þessa til þess að ná meiru opinberu fé til hafnargerðarinnar á Siglufirði en lögin mæla fyrir, er alveg óvenjulegt. Annars þarf Siglufjarðarkaupstaður ekki að kvarta yfir viðskiptum sínum við Kirkjujarðasjóð, því að það eru aðeins skóbætur einar, sem sjóðurinn hefir fengið fyrir allt það, sem hann hefir látið kaupstaðnum í té.