20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (4955)

154. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Finnur Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af aths. hv. þm. Ak. um nál. Hann sagði, að það eina, sem hefði vantað, væri að hv. 1. landsk. hefði skrifað undir nál. fyrirvaralaust. Ég verð að segja, að það eina, sem vantaði í ræðu hv. þm., er, að hann hefði lesið nál. áður en hann talaði um það, því það er ekki annað en fyrirvari við þessar þrjár gr. frv. Vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp úr nál.: „Allir nefndarmenn hafa þó áskilið sér rétt til þess að bera fram brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Á það aðallega við ákvæði 1., 2. og 10. gr.“ — Þegar um það var að ræða að taka málið á dagskrá, lýsti ég því yfir, að ég mundi koma með brtt. sérstaklega við 10. gr. frv., og er því óþarfi að álasa mér um það atriði, enda hefi ég fullan fyrirvara í nál. Það, að Siglfirðingar undanskilja nauðsynjavörur, en Akureyringar ekki, telur hv. þm. vera goðgá, og sýnir þetta bara þá stefnu, sem hann hefir í skattamálum.

Ég skal ekki vera meinsmaður þess, að þetta frv. fari til 3. umr., en lýsi því yfir, að ég mun koma með brtt. við frv. í fullu samræmi við afstöðu mína til frv. hv. þm. Ak., og endurtek það, að nál. er ekkert annað en fyrirvari.

Ég skal geta þess, að það, sem farið er fram á, að Siglufjörður fái hér, er ekkert smáræði, samkv. skeyti frá bæjarfógetanum á Siglufirði, eða nálega 87724,57 kr. Þessa uppbót vili bæjarstj. Siglufjarðar fá leyfi til þess að leggja 100% á og taka í bæjarsjóð. Mér skilst hv. frsm., þm. Barð., telja sérstaka nauðsyn á þessu vegna skaða þess, sem bæjarsjóður hafi átt að verða fyrir í ofviðrinu í vetur, en ég vil benda á það í þessu sambandi, að þetta tjón lenti aðallega á eignum einstaklinga, en lítið sem ekkert á eignum hafnarsjóðs. Þess vegna verða eignir hafnarsjóðs ekki bættar með þessu lagafyrirmæli, heldur með því að hækka vörugjaldið í hafnarsjóð.

Ég vil ekki segja, að ég muni verða því meðmæltur, að slík samþykkt verði gerð, því að vörugjaldið til hafnarsjóðs er mjög hátt. Vörugjaldið frá ríkisverksmiðjunni einni mundi hækka um 25—30 þús. kr. á ári, samkv. upplýsingum kunnugs manns. (GÞ: Allt vörugjaldið er 60 þús. kr.). Það er gagnslaust fyrir hv. 8. landsk. að fara með ósannindi í þessu máli. Ef hv. þm. hefir skeyti frá bæjarfógeta Siglufjarðar, þá ætti hann að lesa það í stað þess að vera að rengja mínar tölur. (GÞ: Vill hv. þm. lesa skeytið?). Ég hefi lesið það upp úr skeytinu, að vörugjöld fyrir árið 1933 eru 87724,57 kr., og ég vona, að hv. þm. fái það sama út úr sínu skeyti.

Ég sagði, að mér fyndist sanngjarnt, að Siglufjörður fengi tekjur af ríkisverksmiðjunni í útsvari, að hún borgaði eitthvað svipað í útsvar eins og aðrar ríkisstofnanir gera til þeirra bæja, sem þær eru í. Ég mundi, þegar tími væri til, taka slíka till. til athugunar, en ég get ekki fallizt á, að lagður sé á óbeinn skattur á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 10. gr.

Skal ég svo efna orð mín um að tefja ekki fyrir málinu við þessu umr., og vona ég að málið gangi til 3. umr., því að þá mun ég leggja fram brtt. í samræmi við nál.