11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (4977)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Thor Thors:

Það er svo ákveðið í 30. gr. stjskr., að reglulegt Alþ. skuli koma saman 15. febr. ár hvert, ef konungur hefir ekki ákveðið annan samkomudag fyrr á árinu. En þessu má breyta með lögum. Það hefir oft heyrzt, að heppilegra væri, að þingið kæmi saman á haustin heldur en á þeim tíma, sem stjskr. gerir ráð fyrir. Á haustin eru betri skilyrði til þess að kynnast afkomu þjóðarinnar í heild og fjárhagsafkomu ríkissjóðs, og þess vegna er auðveldara að ganga frá fjárl. á þeim tíma heldur en í ársbyrjun. Ég tel æskilegt, að það yrði ákveðið í eitt skipti fyrir öll, að þingið kæmi saman á haustin.

Ég get fallizt á það með hæstv. forsrh., að það sé mjög stuttur frestur fyrir ríkisstj. til þess að undirbúa frv. fyrir næsta þing, ef það á að koma saman aftur á venjulegum tíma. Hæstv. forsrh. sagði, að 1. okt. væri of seint að hafa fyrir samkomudag þingsins, til þess að hægt væri að ganga frá málum þingsins. Það hefir ef til vill reynzt svo á þessu þingi, en það stafar af því, að hæstv. ríkisstj. hefir leitt svo mikið af frv. inn í þingið, sem mörg eru óþörf og til óheilla.

Ef farið væri meira eftir kröfum þjóðarinnar í þessum efnum, þá er ég viss um, að tímabilið frá l. okt. fram til jóla yrði kappnógur þingtími. Ég mun því bera fram brtt. við þetta frv., um það, að reglulegt Alþ. komi saman að jafnaði 1. okt., ef annar dagur verður ekki tiltekinn.