11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (4986)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Sigurður Kristjánsson:

Ég tel það fullkomlega tímabært að ræða um samkomudag Alþingis. Ég verð að játa það, að mér kom það allmjög á óvart, þegar ég heyrði, að 15. marz hefði verið ákveðinn samkomudagur næsta Alþingis. Með því er Alþingi flutt yfir á þann tíma ársins, sem ég held, að engum lifandi manni þyki æskilegur eða hafi nokkurn tíma þótt.

Það hefir nú verið rætt töluvert um það áður, hvaða tími væri hentugastur til þinghalds. Öllum hefir auðvitað komið saman um, að það væri sá tími, er þingmenn hefðu minnstum störfum að gegna heima fyrir. Menn ætluðu í fyrstu, að 15. febrúar væri hentugur samkomudagur Alþingis, en það kom brátt í ljós, að þingið stóð langt fram á vorannir, eða fram í júní, sum árin. Þá hefir og verið stungið upp á haustþingum. En á þeim tíma þurfa bændur að vera bundnir við fjárförgun og sláturstörf. (TT: Er ekki eins hægt að standa í þeim á þingi?). Jú, en þau sláturstörf eru öllu óheppilegri en hin, því að á þingi er oftast slátrað því, sem er lífvænlegast.

Ef menn vilja ekki sætta sig við haustþingin, virðist það liggja næst að hafa vetrarþing, eins og verið hefir, en byrja þingið nokkru fyrr, t. d. 20. jan. Með því að ákveða samkomudag Alþ. 15. marz er auðsætt, að þingið stendur fram í júlímánuð, nema því verði frestað til hausts og þingið þannig háð mestallt árið, og þá teldi ég farið inn á ranga braut. Þó að órói og sprikl sé í mörgum um þessar mundir, má setja einhverjar hömlur á þær hræringar, og við erum ekki stærri eða umsvifameiri en það, að okkur ætti alveg að duga 3 mánaða þig. Lengra þinghald leiðir aðeins til þess að rubba upp leiðinlegu og skaðlegu lagadrasli í viðbót við allt það, sem fyrir er.

Ég fer ekki út í þau ummæli hæstv. forsrh., að hv. 5. þm. Reykv. hefði verið að halda eldhúsdag yfir sjálfum sér, vegna þess, að sjálfstæðismenn ættu sök á því, hve þingstörfin hefðu gengið seint. Við sjálfstæðismenn leggjum það óhræddir undir dóm þjóðarinnar, þegar hún les Alþt. frá þessu þingi, hverjir hafi rætt málin af viti og þekkingu og hverjir ekki. Og þjóðin mun líka sjá það af þingskjölunum, hvernig rignt hefir niður frá stj. og fylgifiskum hennar gersamlega vanhugsuðum og greinargerðalausum frv., sem eiga að hafa endaskipti á núv. þjóðfélagsskipun og leggja hana í rústir. Um þessi afkvæmi sín ætlar svo stj. og flokkar hennar að banna andstæðingum sínum að tala, og hefir jafnvel gert tilraunir til að hefta málfrelsi þeirra með ofbeldi. Fyrst bera þeir þetta góðgæti fram fyrir þingið, banna síðan andstæðingum sínum að ræða málin og hælast svo um á eftir.

Ég tel það alveg nægilega að verið af hæpnum meiri hl., að drepa allar till. andstæðinganna með ráðnum hug, hversu skynsamlegar sem þær eru, þótt ekki bætist þar við að ætla að taka af andstæðingunum það málfrelsi, sem mönnum er áskilið í stjskr. Ég vil alvarlega vara hæstv. forsrh. við að ganga lengra á þeirri tæpu og hálu braut, að reyna að svipta andstæðinga sína löghelguðum rétti þeirra til að láta í ljós skoðanir sínar um endemisfrv. stjórnarinnar á þingi.