11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (4990)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Jóhann Jósefsson:

Það eru sjálfsagt skiptar skoðanir um það meðal hv. þdm., hver tími sé heppilegastur til þingsetu og þinghalds. Hæstv. forsrh. sagði, að það hefði aldrei verið sagt, að það ætti að fresta þingi í vor þangað til að hausti, þannig að láta það hefjast 15. marz og standa fram á vorið, en fresta því síðan. Það er rétt, þetta hefir ekki verið sagt, en ég er ákaflega hræddur um, að niðurstaðan verði sú, að fjárl. verði ekki afgr. fyrr en í haust. Eins og aðstaðan er nú, er það ákaflega erfitt fyrir alla, ekki sízt stj., að afgr. fjárl. fyrri part árs. Það er almennt viðurkennt, að heppilegast sé að afgr. fjárl. síðari hluta árs. Þó ég þori ekki að fullyrða, að svo muni fara, þá leyfi ég mér að láta í ljós fullkominn ótta um það, að afleiðing þessa frv., ef samþ. verður, verði tvö þinghöld. En ef á að forðast allt það, sem leitt geti til þess, að tvö þinghöld verði á árinu, þá er ráðið það, að hafa þingið að haustinu; þá er bezt aðstaða til þess að setja fjárl. og þá er líka aðhald með það, að ljúka þingi fyrir áramót. Þinghaldið kostar nú kringum 1/4 millj. kr. á ári, og ef áfram heldur í sömu stefnu og nú horfir, gæti maður búizt við, að kostnaðurinn yrði tvöfalt meiri, og jafnvel helmingi meiri en það. Hitt atriðið, sem hæstv. ráðh. kom með, er ekki ástæða til að ræða meira; því hefir verið svarað af hv. 6. þm. Reykv. o. fl. Ég vildi aðeins láta í ljós skoðun mína um þinghaldið. Ég tel, að ekki megi koma fyrir, að halda þurfi nema eitt þing á næsta ári, og ég tel, að heppilegur tími til þess, að svo megi verða, sé ekki sá, sem í frv. er lagt til.