22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (5006)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Jón Pálmason:

Það þýðir náttúrlega ekki að ræða þetta mál mikið nú; en ég vildi rétt láta þess getið, að ég er talsvert á annari skoðun en hv. þm. V.-Ísf. um það, að bezt muni vera að hafa þing að vorinu. Þetta kemur eðlilega til af því, að hagsmunir okkar utanbæjarmanna rekast allalvarlega á þá tilhögun, raunar ekki síður en ef horfið yrði á þá braut að setja þing snemma eða seint í september, sem má heita sama og að útiloka, að þeir fáu bændur, sem sitja á þingi, geti þar mætt, nema ganga gersamlega á snið við alla sína atvinnulegu hagsmuni.

Eins og komið er málum, sýnist mér réttast, að þetta frv. dagi uppi og þingið komi saman sem næst því, sem ákveðið er í stjskr., því að þótt raunar sé stuttur tími fyrir hæstv. stjórn til að undirbúa mál, þá sýnist mér það ekki myndi gera stórt til, þó að ekki yrði hrúgað inn öðrum eins ósköpum eins og á þessu þingi. Og ef það er ætlun manna að breyta þingtímanum aftur í hið gamla horf, sem ég tel hentugast, verður ekki hjá því komizt, að sú breyting komi ónotalega niður í eitt skipti. En það er ekki heldur nema um eitt skipti að ræða.