22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (5009)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Ásgeir Ásgeirsson:

Minn tilgangur er ekki sá, að ofsækja bændur og flæma þá úr Alþingi. Enda er það vitað, að bændur sátu á sumarþingum meðan þau voru, og rétt eins margir eins og eftir að þingtíminn fluttist á veturinn. Hitt veit ég líka, að það er bezt fyrir bændur eins og fyrir aðrar stéttir og þjóðina í heild sinni, að næsta þing geti orðið starfshæft vegna undirbúnings þingmála og frv. En að stefna þinginu saman nú eftir hálfan annan mánuð er sama og að fella niður að töluverðu leyti þinghald á næsta ári eða lengja þingtímann um helming frá því, sem þyrfti. Og ég hygg, að hvorugt af þessu gefi bezta útkomu fyrir bændastéttina.