22.12.1934
Neðri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (5010)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Pétur Ottesen:

Í sambandi við þau ummæli hv. þm. V.-Ísf., að áður fyrr hafi verið haldin sumarþing og bændur setið þar ekki færri en nú, vil ég benda á það, að það er nú orðin ærin breyting á fyrir bændastétt þessa lands og örðugra að komast frá heimilum sínum en þá var. Og þó að hv. þm. V.-Ísf. þekki ekki vel til í sveitum landsins, þá ætti hann að geta farið nærri um þetta breytta viðhorf bænda, ef þeim er valinn sá allra óhentugasti tími til að yfirgefa heimili sín, eins og gert yrði samkv. hans till.

Þá kvað hv. þm. ekki vera nægan tíma fyrir hendi til undirbúnings þingmálum. Hvar eru þá öll þessi „ráð“ og allir þessir dráttarklárar, sem hv. 2. landsk. talaði um, að hæstv. stj. beitti fyrir plóginn hjá sér? Hvar er þá allt þetta mikla afl og mannvit, sem hæstv. stj. hrúgar í kringum sig til að leysa vandamál þjóðarinnar, ef það getur ekki komið fram í undirbúningi þingmála? (MT: Segjum tveir!). Já, segjum tveir!