08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (5041)

102. mál, vistarskóli fyrir vanheil börn og unglinga

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og sjá má á nál. allshn. á þskj. 585, þá er n. meðmælt þessari till. En hún telur rétt, að till. verði gerð nokkru víðtækari, af þeim ástæðum, sem greindar eru í nál. Jafnhliða till. þessari hafði n. til athugunar annað skylt mál. frv. um fávitahæli. Hvað mál þessi snertir, þá komst hún að þeirri niðurstöðu, að réttast væri að þau yrðu athuguð milli þinga, og vill því sameina þau í eina þál. bæði. Ég mun ekki fara langt út í efni þessarar þáltill. eða frv. N. kannast við, að bæði málin þurfi úrlausnar og að þau séu bæði vandasöm og sennilegt, að þau muni koma til með að kosta ríkissjóð mikið fé, a. m. k. sú hlið málsins, sem snýr að fávitunum. N. viðurkennir einnig, að hefjast þurfi handa um aðgerðir í þessum málum báðum. Þess vegna telur hún réttara, að þau séu bæði athuguð um leið, og ef hægt væri hrundið í framkvæmd, þó ekki væri nema að einhverju leyti.

Hvað snertir fávitahælið út af fyrir sig, þá telur nefndin, að það myndi ekki koma að notum, þó að samþ. yrðu lög um það, meðan ekki er fyrir hendi fjárframlag til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Auk þess telur n., að það fyrsta, sem þurfi að gera, sé að semja heildarlög um það, hverjum beri að sjá fyrir þessum aumingjum. — Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, því eins og ég hefi tekið fram, þá tekur n. báðum þessum málum vinsamlega, og vil ég því fyrir hennar hönd leggja til, að brtt. á þskj. 585 verði samþ.