11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (5045)

173. mál, vegarstæði um Lágheiði

Flm. (Einar Árnason):

Ég þarf ekki að fylgja þessari litlu þáltill. úr hlaði með mörgum orðum. Ástæðan til þess, að við flm. berum hana fram, er sú, að við teljum nauðsynlegt að rannsaka, hvernig heppilegast er að koma Ólafsfirði í vegarsamband við aðrar sveitir. Því er þannig háttað, að Ólafsfjörður hefir engar samgöngur á landi við nærliggjandi sveitir, nema eftir ómerkilegum götuslóðum. Ólafsfjörður gengur inn í fjallgarðinn vestan við Eyjafjörð, og eru þar hrikaleg og illkleif fjöll á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar. En inn úr botni fjarðarins liggur eina leiðin, sem hugsanleg er til umferðar vestur á við, áleiðis til Fljóta í Skagafirði. Á þessari leið er heiði, sem nefnist Lágheiði. Hún er tiltölulega lág og brattalítil og álitin góð til vegarlagningar. En þar er enginn vegur, nema troðningar fyrir hesta og gangandi menn. Þetta er áreiðanlega eina leiðin, sem hægt er að fara til þess að koma á sæmilega greiðfærum vegi milli Ólafsfjarðar og Fljóta í Skagafirði. Ólafsfjörður er allstórt þorp. Þar er útgerð í blóma og verzlun og atvinna í allgóðu gengi. Þess vegna yrði vegarsamband þarna á milli þessara héraða, Ólafsfjarðar og Fljóta, til mikils gagns á allan hátt, bæði fyrir Ólafsfjörð og sveitirnar vestan heiðarinnar, sérstaklega í verzlunarviðskiptum. Ólafsfjörður kemst einnig í samband við Siglufjörð á þennan hátt landleiðis, þegur vegur er kominn úr Fljótum yfir Siglufjarðarskarð. Má þá segja, að héruðin — Fljótin og Stífla — hafi fengið verzlunarstaði á báðar hendur, þar sem eru Ólafsfjörður og Siglufjörður. — Nú er í þáltill. aðeins farið fram á, að stj. láti rannsaka þetta vegarstæði yfir Lágheiði og gera áætlun um, hvað kostar að leggja akveg yfir hana. Sjálfur hefi ég ekki farið yfir þessa heiði, en ég hygg, eftir sögu kunnugra manna, sem hafa athugað þetta, að það muni ekki vera mjög dýrt. En það kemur náttúrlega í ljós á sínum tíma, enda er það ekki beinlínis viðkomandi þessari till., því að hér er ekki um neitt fjárframlag að ræða til vegarbyggingar.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þd. taki þessari till. vel og vilji stuðla að því, að þessi rannsókn fari fram. Einnig geri ég ráð fyrir, að hæstv. stj. sjái sér fært að láta athuga og rannsaka þessa leið á næsta sumri, svo að hægt sé að hefja vegarlagningu inn eftir Ólafsfjarðarsveitinni, áleiðis til Lágheiðar, þegar á næsta hausti. Þar er nú þegar kominn alllangur vegarkafli, en það þarf að bæta nokkru við bann, áður en talizt getur bílfært að Lágheiðarskarði. — Ég þarf ekki að fara um þetta fleiri orðum, en vænti góðra undirtekta og stuðnings hv. þdm. við þetta mál.