11.10.1934
Neðri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

11. mál, einkasala á áfengi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í frv. þessu er farið fram á, að „Áfengisverzlun ríkisins“ fái einkaleyfi til þess að framleiða hér á landi: ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa, kjarna (essensa) til iðnaðar og pressuger.

Núna hefir verzlunin heimild til einkaréttar á innflutningi þessara vörutegunda, en hér er farið fram á, að hún fái einkarétt til þess að framleiða þessar vörur.

Annars er óþarft að fjölyrða frekar um þetta, vegna þess að í grg. frv. er gerð ýtarleg grein fyrir þessu.

Að lokum vil ég mælast til þess, að frv. verði vísað til fjhn., að umr. lokinni.