19.10.1934
Neðri deild: 14. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Sjálfstfl. er, eins og vitanlegt er, andvígur öllum ríkisrekstri, og náttúrlega þá ekki sízt einokunarrekstri, eða þeim rekstri, sem ríkið hefir einkarétt á, og sviftir einstaklinga þjóðfélagsins atvinnu. Þetta frv. er að vísu ekki stórvægilegt. Hér er ekki um neinn stórvægilegan atvinnurekstur að ræða, og mætti þess vegna líta svo á, að ekki væri sérstök ástæða til að amast við þessu frv., sérstaklega þar sem ríkið hefir þegar einkasölu á áfengi og þessar vörur eru settar í samband við þá verzlun.

Ég orðaði það í n., að réttara væri að fá til viðtals þá menn, sem stundað hefðu þá atvinnu, sem hér er lagt til, að ríkið taki í sínar hendur. En það féll niður, því meiri hl. n. þótti ekki ómaksins vert að rannsaka þá hlið málsins.

Nú hefi ég f. h. minni hluta n. aflað mér þessara upplýsinga með því að bera málið undir þá, sem stundað hafa framleiðslu á þessum vörutegundum. Við það samtal hefir komið í ljós, að þetta frv. felur í sér verulega skerðing á atvinnu fyrir þær efnagerðir, sem eins og kunnugt er eru komnar upp hingað og þangað á landinu, en þó einkum hér í Rvík. Ég hefi fengið skriflega umsögn forstjóra Efnagerðar Reykjavíkur um frv., og ætla ég að lesa hana hér, svo hv. þdm. fái að heyra þau rök, sem fyrir hendi eru gegn því að fela ríkinu einokun á þessari framleiðslu:

„Í tilefni af frv. til l. um breyt. á 1. nr. 69 7. maí 1928, um einkasölu á áfengi, viljum vér leyfa oss að gera eftirfarandi athugasemdir:

Samkvæmt áfengislögunum nr. 69 7. maí 1928 má enginn flytja hingað frá útlöndum áfengi eða vínanda, sem meira er í en 2¼%. nema ríkisstjórnin. Hefir því ríkisstjórnin ein heimild til þess að flytja til landsins og framleiða hér á landi ilmvötn, hárvötn, andlitsvötn, bökunardropa, kjarna (essensa), sem innihalda spíritus.

Þessum ákvæðum hefir einnig verið beitt af Áfengisverzlun ríkisins, sem hefir flutt þessar vörutegundir inn og selt þær í heildsölu til kaupmanna og veitt verslununum innflutningsleyfi með sinni aðstoð.

Umrætt lagafrumvarp hefir því enga breytingu í sér fólgna, er breytir þeim gildandi lagaákvæðum, er snerta þær vörutegundir, sem innihalda meira en 2½% af vínanda. Breytingin liggur eingöngu í því, að veita Áfengisverzluninni einkasölu á þeim ilmvötnum, hárvötnum, andlitsvötnum, bökunardropum og essensum, sem ekki innihalda spíritus.

Hér á landi eru mörg fyrirtæki, sem að meira eða minna leyti fást við framleiðslu á fyrrnefndum vörutegundum, og er það fjöldi fólks, sem hefir atvinnu við þessa framleiðslu. Mundi þetta fólk að sjálfsögðu verða atvinnulaust, ef umrætt frv. yrði að lögum.

Í athugasemdum þeim, er fylgja frv., er því talið til gildis, að hagkvæmt þyki, að ríkisstjórnin fái þennan rétt, þar eð það létti stórum eftirlit með notkun á iðnaðarspíritus.

Þessu er því að svara, að þegar vörur þessar eru framleiddar úr kemískum efnasamsetningum, sem alls engan spíritus innihalda, þá getur sú iðnaðarframleiðsla ekki haft nein áhrif á eftirlit með notkun á iðnaðarspíritus.

Þá er þess getið í frv., að markaðurinn sé svo takmarkaður, að ekki séu líkur til, að iðnaður komist á það stig að vera samkeppnisfær við erlendar iðnaðarvörur af sömu tegund, ef margar stofnanir hafi hann með höndum.

Þessi iðnaður hófst hér á landi meðan allur innflutningur var frjáls. Ekki hefir borið á öðru en að hann hafi verið samkeppnisfær, enda sýnir reynslan, að hann hefir farið hraðvaxandi með ári hverju og er nú kominn á það stig, bæði að gæðum, frágangi og útliti, að hann þolir samanburð og samkeppni við erlenda framleiðslu.

Staðhæfing sú, að við framleiðslu á umræddum vörum heppnist vart sem skyldi, án spíritus, upplausn á hinum nothæfu efnum, hefir við ekkert að styðjast og er hrein fjarstæða, sem haldið er fram af þekkingarleysi. Það eru til mörg kemísk efnasambönd, sem ekkert eru skyld spíritus, en sem eru orðin mikið notuð til framleiðslu á þessum vörum, ekki aðeins hér á landi, heldur einnig erlendis.

Ef frv. þetta yrði að lögum, mundi það svipta iðnaðarfólk atvinnu, og er það tilfinnanlegt á þessum tímum.

Einnig hafa iðnaðarfyrirtæki þau, er þessa iðn stunda, bundið fé í umbúðum, áhöldum og vélum, auk þess stofnkostnaðar, sem ný iðnaðarframleiðsla hefir í för með sér. Þessi fyrirtæki mundu því verða fyrir fjárhagslegu tjóni, ef þau yrðu að hætta atvinnu sinni á þessu sviði.“

Þessi umsögn ber það með sér, að önnur ástæðan fyrir þessu frv., og sú, sem í grg. frv. er talin aðalástæðan fyrir því að lögleiða ríkisrekstur á þessari framleiðslu, eða einokun, að auðveldara verði að hafa eftirlit með notkun á iðnaðaráfengi er gripin úr lausu lofti. Er það auðskilið, þar sem iðnaðaráfengi er alls ekki notað til framleiðslu á þessum vörutegundum. Hin höfuðástæðan, sem frsm. meiri hl. fjhn. færði fyrir frv., var sú, að það gæfi ríkinu tekjur. Þar til er því að svara, að það er ákaflega athugaverð braut fyrir ríkið að taka atvinnu af sínum skattborgurum til þess að hafa ágóða af henni sjálft. Fyrst og fremst er það vafasamt, að ágóðinn verði meiri hjá ríkinu, því reynslan hefir löngum sýnt hið gagnstæða. Og rökin fyrir því, að ríkissjóður fái tekjur af þessari einokun, eru þau, að þeir „vænta“ þess, að hún gefi einhverjar tekjur. Hinsvegar er engin tilraun gerð til þess að styðja þá von, þrátt fyrir það, þó að Áfengisverzlunin hafi haft þennan atvinnurekstur um lengri tíma, og ætti því að hafa haft tekjur af honum. Það er alveg furðulegt, þegar borið er fram tekjuöflunarfrv. sem þetta, að þá skuli engin grein vera gerð fyrir því, hvað Áfengiverzlunin hafi haft undanfarið upp úr þessum atvinnurekstri. Ég verð því að ætla, að þær tekjur hljóti að hafa verið litlar eða engar, eða jafnvel að útkoman hafi verið tap. Hinsvegar hefir Efnagerð Reykjavíkur haft góðar tekjur af sínum rekstri. Einkafyrirtækið hefir haft hagnað miðað við ríkisreksturinn, þrátt fyrir það, þó að hann væri skattfrjáls, en einkafyrirtækið hefir orðið að borga háa skatta til ríkis og bæjar. Hvers vegna hefir einkafyrirtækið staðið sig miklu betur? Hvers vegna nægir ekki Áfengisverzluninni að reka sína atvinnu í frjálsri samkeppni, eins og hún hefir gert? Það er augljóst, að hún er ekki samkeppnisfær þrátt fyrir sína góðu aðstöðu. Áfengisverzlunin ein getur notað spíritus til framleiðslunnar, sem hún segir, að hér um bil ómögulegt sé að vera án. Einkafyrirtækin fá ekki að nota hann, þó geta þau staðizt samkeppnina.

Það er alvarlegur hlutur, að nú skuli hvert einkasölufrv. reka annað í þinginu. Það er alvarlegt fyrir þá sök, að öll stefna þau að því að spilla atvinnu skattborgaranna og leggja undir ríkið, jafnvel þó að ríkið hafi tekjur af rekstrinum. Það liggur í augum uppi, að enginn vandi er að afla tekna af framleiðslu, þegar engin takmörk eru fyrir því, hve verðið er sett hátt.

Hvert stefnir í þessu efni, geta menn séð af frv., sem áðan var verið að útbýta á þskj. 148, um það, að innleiða óbeina skatta í þarfir sveitarfélaga. Annarsvegar gengur ríkissjóður svo grimmilega á höfuðgjaldstofn sveitarfélaganna, útsvörin, með hækkandi tekjuskatti, að ókleift verður fyrir þau að innheimta nauðsynlegar tekjur á þann hátt. Hinsvegar eru svo einstaklingarnir til sjávar og sveita sviptir meir og meir möguleikunum til að stunda þann atvinnurekstur, sem þeir hafa stundað, og hann lagður undir ríkið, og þar með enn rýrðir möguleikar sveitarfélaganna til þess að komast af fjárhagslega.

Ég sé ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að gera frekari grein fyrir afstöðu minni hl. fjhn. í þessu máli. Það gefast væntanlega mörg tækifæri til þess enn á þessu þingi að ræða um þessa stefnu núv. stjórnarflokka, að draga allan atvinnurekstur og alla verzlun undir ríkisvaldið. Afleiðingunum fá menn smátt og smátt að þreifa á gegnum síminnkandi gjaldþol skattþegnanna.