17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (5102)

91. mál, miðunarstöð í Vestamannaeyjum

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Það eru aðeins örfá orð um þessa till. — Ég býst við, að flestum, ef ekki öllum, sé kunnugt um þær einróma áskoranir, sem hafa komið frá sjómönnum yfir höfuð um að fá reistar miðunarstöðvar í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi. Sjútvn. hefir lagt einróma til, að till. verði samþ., en hinsvegar hefi ég, síðan n. tók ákvörðun um málið, borið fram brtt. um það, að stofnkostnaður greiðist af því fé, sem ætlað er til vitabygginga á þessu ári, og hefir meiri hl. fjvn. tekið till. upp í sitt nál.

Brtt. er fram borin vegna þess, að mér var bent á, að það þyrfti að ákveða, hvaðan það fé skyldi koma, sem til byggingarinnar færi, því að tillögur, sem fælu í sér fjárútlát, ættu að ræðast í sameinuðu þingi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið að þessu sinni.