17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (5104)

91. mál, miðunarstöð í Vestamannaeyjum

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, skal ég geta þess, að það er rétt, að það kom umsögn frá vitamálastjóra um ljósmagn Vestmannaeyjavitans, og hann lagði á móti aukningu þess. Einnig hefir n. fengið umsögn vitamálastjóra og landssímastjóra, þar sem lagt er á móti því, að reistar verði miðunarstöðvar. Ég hefi ekki fyrir mér þau plögg nú, en ég skal benda á það, að landssímastjóri segir í áliti sínu, að miðunarstöð á Reykjanesi muni kosta 80000 kr., ef þar eigi að vera 1 starfsmaður, en 130000 krónur, ef þar eiga að vera 3 starfsmenn. Hann miðar þá við, að hús yfir 2 starfsmenn kosti 50000 kr. Ætti þessi bending að nægja til að fullvissa menn um fjarstæður sérfræðinganna, þegar þeir bera það fram, að íbúðarhús fyrir tvær fjölskyldur kosti 50 þús. kr.

Ég hygg, að þeir, sem hafa kynnt sér þessi plögg, geti fljótt fullvissað sig um, að það er eitthvað sérstakt, sem liggur á bak við þessa andúð vitamálastjóra og landssímastjóra gegn þessu máli. Ég hygg, að það sé ástæðan, að þeir séu að togast á um það, hvort þetta heyri undir vita- eða símamál.

Hinsvegar hafa komið áskoranir og umsagnir frá öllum stéttum þeirra manna, sem koma til með að nota miðunarstöðvarnar, frá félögum vélstjóra, skipstjóra, stýrimanna, háseta og kyndara og frá fél. loftskeytamanna, og óska þeir þess einróma að fá miðunarstöðvar og telja það þá beztu öryggisráðstöfun, sem þeir hafi haft reynslu af. T. d. óska þeir skipstjórar, sem hafa miðunarstöð um borð í skipum sínum og hafa því reynslu af hvorutveggja, miðunum úr landi frá borði, að miðunarstöðvar verði settar upp í landi, því þeirra reynsla sé, að miðanir úr landi verði nákvæmari.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara lengra út í þetta. Þau bréf, sem n. hafa borizt um þetta, eru löng og ýmislegt fleira þar tekið fram. En ég held, að þeir, sem hafa lesið þessi plögg, hljóti að fullvissa sig um það, að andstaða þeirra er ekki á rökum byggð, heldur er það metingur um það, hvort þetta heyri undir vitamál eða símamál.