19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (5124)

165. mál, kryddsíldartollur í Danmörku

Finnur Jónsson:

Frsm. þessa máls, hv. þm. Vestm., er veikur, svo ég vil f. h. sjútvn. segja nokkur orð um málið.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hafa Danir leyfi til að veiða hér síld í landhelgi og sömu aðstöðu og Íslendingar. Hinsvegar hafa Danir kryddsíldartoll á þeirri kryddsíld, er Íslendingar senda til Danmerkur, en engan á sinni eigin síld. Þetta hefir komið til umr. í lögjafnaðarnefndinni, og var viðurkennt af Dönum þar sem brot á jafnréttisákvæðunum milli Íslands og Danmerkur. Í sjútvn. Nd. lágu fyrir umr. frá fundum lögjafnaðarnefndarinnar, þar sem þetta kom skýrt fram. Í l. í Danmörku er ákveðinn tollur á kryddsíld, en með tilskipun frá fjmrn. danska var Dönum veitt undanþága frá að greiða tollinn. Þar sem Danir og Íslendingar hafa sömu réttindi til síldveiða hér við land, er það ranglæti, að Íslendingar séu látnir greiða þennan toll, og rétt að fá því kippt í lag. Það er að vísu ekki mikið selt af íslenzkri kryddsíld til Danmerkur, en það er þó um 4000—6000 tunnur. Þeir, sem flytja þessa till., leggja því áherzlu á, að stj. kippi þessu í lag.