20.12.1934
Efri deild: 67. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í D-deild Alþingistíðinda. (5130)

184. mál, skipulagsuppdráttur Reykjavíkur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal játa það, að eins og hv. flm. till. gat um, þá er hún þannig, að það munu ekki ske neinir stórir hlutir, þó að hún verði samþ. En mér heyrðist það á framsöguræðu hans, að hann væri ekki vel kunnugur því, hvernig hagar til í sambandi við háskólalóðina og þá götu, sem gert er ráð fyrir, að eigi að skera þá lóð í sundur. Það er alls ekki um þetta að ræða hér. Það hefir engum dottið í hug, að það ætti að leggja umferðaveg þvert yfir háskólalóðina. Það, sem hér ræðir um, er það, hvernig lóðin skuli ákveðin, hvort gatan eigi að koma þarna í suðvestur og háskólalóðin verði þá dálítið öðruvísi í laginu en upphaflega var hugsað.

Þessi lóð, sem hefir verið talað um — það er langt frá því, að búið sé að ganga frá þessu —, er gríðarlega mikið flæmi, sem nær alla leið frá Stúdentagarðinum að norðan upp á veginn suður melana, og alla leið þaðan þvert yfir gömlu Vatnsmýrina og austur að framlengingu á Njarðargötunni, sem nú er verið að lengja. Þetta er geysimikið flæmi, og það er ekki nema tiltölulega lítill partur af þessu flæmi, sem mögulegt er að byggja á, en það er vestasti hluti þess, hallinn austur af melunum, sem er sú eiginlega byggingarlóð. Þegar komið er í mýrina, þá er ekki hægt að koma við frárennsli, og þar að auki er ákaflega dýrt að búa um hús þar, svo að það er ekkert vit í því að reisa þar neina byggingu að sinni, og ef til vill aldrei. Það á heldur að nota mýrina til þess að fá opið pláss, sem vitanlega verður að vera einhversstaðar inni í bænum, þegar hann stækkar enn meira en orðið er. Það er þess vegna augljóst, að ef háskólinn á að fá þessa lóð, þá er það til þess eins, að halda opnu plássinu fyrir framan bygginguna, en engan veginn af því, að hann hafi í raun og veru neitt gagn af því, þannig, að hægt sé að byggja þar. Það hafa þess vegna ýmsir í háskólaráðinu álitið, að það væri betra fyrir háskólann að láta af hendi þennan part lóðarinnar, sem hvort sem er verður alltaf að hafa óbyggðan — en sem bærinn mundi nota til sinna þarfa, og þá sennilega fyrir íþróttavelli —, en fá aftur lóð framundan suðvesturmelunum, stóra byggilega lóð. Það hefir komið upp sú hugmynd, að hentugt væri, að t. d. háskólakennararnir og aðrir, sem vinna við stofnunina, gætu fengið leigðar lóðir þarna.

Eins og áður er tekið fram, er alls ekki um það að ræða hér að skera háskólalóðina í sundur. Hún er í raun og veru alls ekki til ennþá, þar sem ekkert er búið að ákveða um hana, heldur er um það að ræða, hvernig háskólalóðin skuli endanlega ákveðin.

Þá kemur að atriði, sem einnig snertir þetta mál. Það hefir verið fyrirhugað, en er ekki búið að ákveða um það, og er það, að ýmsir líta svo á, að ekki verði komizt hjá því að leggja götu þarna í suðvestur, í framhaldi af Tjarnargötunni, og hún kæmi eins neðarlega í jaðarinn milli mýrarinnar og melanna eins og hægt er vegna frárennslisins. Sumum af þeim, sem hafa bitið sig fastast í það, að háskólinn ætti að hafa alla lóðina yfir mýrina og austur að Njarðargötu, er mjög illa við að skera þessa lóð í sundur með götu. En deilumálið er það, hvaða akkur háskólanum sé að því að fá þessi tún. Mér fyrir mitt leyti finnst enginn akkur í því fyrir háskólann að fá þau, því að hann verður þá að kosta upp á þessa lóð, í staðinn fyrir að annars gerði bærinn það. Ef bærinn ætlaði að setja þarna upp stórar byggingar, þá væri ágætt fyrir háskólann að fá umráð yfir þessu, en bærinn mundi sennilega koma þarna upp alveg samskonar völlum og háskólinn mundi annars gera. Annars er það, eins og alkunnugt er, að stofnun, sem starfar aðeins að vetrinum, hefir fjarskalega lítið að gera með íþróttavelli fyrir útiíþróttir. Það er mála sannast, sem háskólakennari einn sagði, að það væri betra fyrir háskólann að eiga gott afdrep fyrir skíðamenn, ef einhverjir stúdentar vildu stunda það vetrarsport, því að vitanlega tvístrast háskólinn á þeim tíma, sem háskólastúdentar stunda mest íþróttir.

Annað, sem um er að ræða í þessu sambandi. er það, hvort mikill hávaði eða mikið ónæði mundi verða af þessari götu, sem mundi liggja fram með lóðinni. Um það geta náttúrlega verið skiptar skoðanir. Hér hefir háskólinn starfað í þessu húsi og sömuleiðis Alþ. Ég veit ekki, hvað mönnum hér finnst mikið til um þær truflanir, sem umferðin á götunni orsakar, en gatan er þó hér undir veggnum. Það ber ekki svo mikið á því við innistörf, þó að vagn aki framhjá. Lóðin kringum háskólann yrði að sjálfsögðu afgirt frá götunni og byggingin yrði langt frá götunni. Ég legg mjög lítið upp úr þessu, enda mætti líka með lögreglusamþykkt ákveða, að einhver ákveðin umferð færi ekki þessa götu. Hv. fyrri flm. sagði, að með þessu væri lóðin gerð ákaflega löng og mjó, en hún mundi að öðrum kosti verða ennþá lengri. Það er langt frá því, að hún sé mjó, því að hún er alveg geysilegt flæmi, og ef hún væri afgirt og öllu komið þar í gott horf, þá er enginn vafi á því, að þarna verður stórkostlega rúmgott og alveg fullnægjandi pláss eins langt fram í tímann og við höfum nokkra ástæðu til þess að horfa.

Mér er ekki kunnugt um það og ég skal ekki skera úr um það, hvað stj. getur haft mikil áhrif á þennan skipulagsuppdrátt. Það fer að sjálfsögðu eftir l. um skipulag bæjarins. Ég hygg, að bæjarstj. geti ráðið þessu, en veit ekki, hvort stj. hefir það á sínu valdi að hlutast til um þetta. Svo er það eitt í þessu sambandi, sem ég vil minna á, og það er, að ef þess er í raun og veru þörf að fá umferðagötu þarna suðureftir, þá er enginn vafi á því, að hún verður lögð, því að reynslan er sú í öllum borgum og bæjum, að nauðsynlegar götur koma alltaf, og það er alveg sama, hvað búið er að gera, og þó að búið sé að útmæla lóð til háskóla og rækta hana, því að ef bærinn þarf umferðagötu, þá verður hún lögð hvar sem er og hvað sem það kostar. Menn hafa orðið að rífa niður skrautlegar og dýrar byggingar, til þess að geta lagt umferðagötur, og þá er miklu betra að sjá það út í byrjun og haga byggingunum eftir því frá upphafi.

Annars finnst mér nú þessi hugmynd um torg við Þjóðleikhúsið allhlægileg. Eins og kunnugt er, var húsið sett á þennan dæmalausa stað af því að lóðin fékkst ókeypis. Ég hefi engan heyrt halda því fram, að staðurinn væri heppilegur, heldur eru allir sammála um hitt, að val staðarins hafi tekizt í mesta máta óhönduglega. En hvað verður þá úr þeirri hagsýni að byggja þarna, af því að lóðin fékkst ókeypis, ef svo þarf að rífa niður mörg hús á dýrasta stað í bænum til þess að fá torg við húsið. Þetta minnir á söguna um molbúana, sem báru smalann átta saman inn á akurinn, til þess að hann træði ekki niður kornið. Ég held, að betra hefði verið að lofa smalanum að ganga inn á akurinn og kaupa lóð undir húsið í upphafi. En þó að það ráð væri nú tekið að rífa þessi hús og taka þennan dýra stað undir torg, þá fer fjarri því samt sem áður, að leikhúsið standi á fallegum stað. Það mundi halla niður að því frá torginu, en hitt er ólíkt fegurra, að veglegar byggingar standi þar, sem hærra ber. Það getur náttúrlega að því rekið, að eitthvað verði að rýmka til fyrir framan Þjóðleikhúsið, en úr því sem komið er verður aldrei frá staðnum gengið svo að byggingin njóti sín.