10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (5142)

166. mál, verslunarerindrekar í Mið-Evrópu

Ásgeir Ásgeirsson [óyfirl.]:

Ég vil aðeins geta þess, að fyrrv. stj. var það fyllilega ljóst fyrir rúmu ári síðan, að innflutningshöft og hátollar á aðfluttum vörum voru komin á svo hátt stig í löndum Mið-Evrópu, að óhjákvæmilegt væri að senda þangað sérstakan mann til að semja um þau mál. Þó að danska utanríkisstj. væri öll af vilja gerð til þess að greiða fyrir viðskiptum Íslendinga í þessum löndum, þá hafði hún ekki þá sérþekkingu á verzlunarhögum okkar, sem nauðsynleg var til slíkra samninga. Og svo virðist einnig, sem Íslendingar eigi víða vinsældum að fagna meðal annara þjóða, þannig að það sé happasælla fyrir þá að túlka sjálfir málstað og þarfir þjóðarinnar á erlendum markaði. Vegna þessara hluta sendi fyrrv. stj. Jóhann Jósefsson framkvæmdastjóra oftar en einu sinni í samningaerindum til Mið-Evrópulandanna, og vann hann að þeim í samráði við sendiherra Dana í þessum löndum. Niðurstaðan af þessum samningum þótti eftir atvikum mjög góð. Og ég get sagt frá því hér, að í einkabréfi, er mér barst sem ráðherra frá dönskum sendisveitarembættismanni — Zale — voru þau ummæli, að við hefðum sent hinn ágætasta fulltrúa frá Íslandi, sem hefði reynzt með afbrigðum vel hæfur til samninga og til ómetanlegs gagns fyrir okkar málstað.

Eftir þá reynslu, sem fengizt hafði af fyrstu ferð erindrekans, lét ég þennan mann vita það aftur í fyrra, að hann mætti vera við því búinn að fara þá aðra ferð fyrir stj. til Mið-Evrópu, og að hann mætti búast við lengri dvalartíma erlendis, og jafnframt, að hann þyrfti að ferðast til fleiri landa, til viðskiptasamninga og markaðsleitar fyrir íslenzkar afurðir.

Sú heimild, sem hv. flm. þessarar þáltill. vilja fá frá þinginu til handa ríkisstj., er alveg sjálfsögð, og er ég þakklátur hv. flm. fyrir þessa till. og vil mæla með því, að heimildin verði afgr., svo að hvorki vanti heimildir eða fé til þess, að markaðir verði auknir og efldir fyrir framleiðsluafurðir okkar erlendis. Ég treysti stj. til þess að velja hæfan mann til þessa hlutverks. En út af því, sem sagt var um það, hversu lítið hefði verið skrifað í blöðin eða borið fram opinberlega til viðurkenningar á starfi þess erindreka, sem fyrrv. stj. sendi til Mið-Evrópu, vil ég láta þess getið að ég þekki engan mann, sem er eins vel hæfur til þess að reka erindi okkar í viðskiptamálum í löndum Mið-Evrópu.