10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (5145)

166. mál, verslunarerindrekar í Mið-Evrópu

Magnús Torfason [óyfirl.]:

Það hefir verið bent á, að réttara mundi vera að setja lög um þetta efni heldur en að heimila með þáltill., að þetta erindrekastarf skuli stofnað. Ég tel það vafasamt, að réttara sé að ákveða það með lögum á þessu stigi málsins og á þessum tíma árs. Aðalmergurinn í till. skilst mér vera sá, að stj. sé heimilað að hafa erindreka í Mið-Evrópu þegar henni finnst við þurfa, en þá heimild hefir vantað hingað til. Að þessu leyti er ég till. samþykkur. En það leiðir ekki til þess, að erindrekinn þurfi að gegna þessu starfi allt árið. Eins og till. er nú orðuð, þá er enginn vafi á, að það er fastara að þessu kveðið með því að vitna til samskonar skipunar á þessu starfi eins og nú gildir um erindrekann á Spáni, sem er skipaður fastur starfsmaður. Ég hefði því talið æskilegt, að þessu yrði breytt og að komið væri fram með till. um það við síðari umr. Ennfremur vil ég benda á aðra sérstaka ástæðu til þess, að ég tel ekki rétt, að hrapað verði að því að gera þennan erindreka með lögum að föstum starfsmanni, og hún er sú, að það stendur alveg sérstaklega á í Mið-Evrópu nú á þessum tímum, að það eru ekki allir menn jafnþekkilegir, sem þangað koma. Ég býst ekki við, að það mundi t. d. þykja heppilegt að senda þangað Þórberg Þórðarson, sem við þekkjum allir og er að mörgu leyti góður maður. Ég hygg, að það yrði talið hollara að senda þangað mann, sem væri honum öndverður og hneigðist til hinnar handarinnar. Því hefir verið skotið til mín, að ég væri ekki vel fallinn til þess, og skal ég játa það fyllilega. En ég hygg, að sá hv. ræðumaður hefði gjarnan mátt láta það ógert, því að með því hefir hann minnt óþægilega á sjálfan sig. Og hvað sem annars má um norsku samningana segja, þá ætla ég, að þeir hefðu orðið betri, ef ég hefði um þá fjallað heldur en hann.