10.12.1934
Sameinað þing: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (5147)

166. mál, verslunarerindrekar í Mið-Evrópu

Magnús Torfason:

Ég þarf að hafa svo mikið fyrir því að fara úr sæti mínu til að svara þessu. Ég vil fyrst og fremst geta þess, að ég lít svo á, að hv. þm. G.-K. hafi ekkert vald til að skipa mér fyrir um þingstörf. Og allra sízt getur hann ætlazt til þess, að ég svari því af eða á, hvort ég vilji segja upp norsku samningunum, án þess að ég fái tækifæri til að bera mig saman við minn flokk. (ÓTh: Þarf þm. að tala við Hannes?). Hv. þm. má vita það, að síðan samningarnir voru samþ. hefir verið talsvert upplýst um bresti á þeim. Og þó að ég hafi samþ. þá á sínum tíma, þá er alls ekki víst, að ég mundi geru það nú En svo vil ég benda hv. þm. á, að það er beinlínis hugsunarvilla hjá honum, að það standi nokkuð í sambandi við frammistöðu hans í norsku samningunum, hvort ég vilji láta segja þeim upp nú eða ekki. En það er oft svo í slíkum málum sem þessum, ekki sízt samningamálum, að samningsaðili verður venjulega að ganga inn á það, sem einu sinni er búið að ympra á við mótpartinn, þó að honum hefði ekki dottið í hug áður að samþ. það. Þá verður oft og tíðum að segja b, þegar einhver samningamaðurinn — einhver ofvitinn — hefir sagt a. — Um norsku samningana get ég að öðru leyti sagt það með réttu, að við mundum víst allir óska þess, að hægt væri að segja þeim upp sem allra fyrst. Með þessu, sem ég nú hefi sagt, þykist ég ekki hafa svarað út úr, og hygg ég, að ekki verði meira með sanngirni af mér heimtað.