02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

11. mál, einkasala á áfengi

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Mér fannst hv. l. þm. Reykv. í ræðu sinni ganga inn á röksemdir mínar, að þau skilríki, sem fram hafa komið í málinu, sýni, að ekki sé hægt að framleiða þær vörur, sem ég nefndi, svo boðlegar séu, nema með því að nota í þær spíritus.

Þá er það, sem um er deilt, hvort sú aðferð sé réttari, að leyfa fyrirtækjum yfirleitt að nota spíritus í þessar vörur, eða hin, að þetta falli allt undir áfengisverzlunina. Ég álít, að þetta eigi að falla undir Áfengisverzlunina - og þess vegna er frv. komið fram - heldur en að hverjum og einum sé leyft að hafa spíritus með höndum, því að örðugt eftirlit mundi fylgja því.

Hvað því viðvíkur, að ekki sé hægt að framleiða bökunardropa, nema með því að hafa í þá spíritus, og að Áfengisverzlunin hafi þegar einkarétt á því og sé því ein um framleiðslu þeirra, þá er það ekki allskostar rétt. Það er hægt að framleiða vöru, sem kölluð er þessu nafni, án þess að hafa í hana spíritus, og sem því er 2. eða 8. flokks vara, án þess að almenningur viti, hve langt hún stendur að baki 1. fl. vöru. Það er einmitt þetta, sem hægt er að fyrirbyggja með því að gefa ríkisstj. einni heimild til að flytja inn eða framleiða þessa vöru ásamt fleirum, sem nefndar eru í frv.

Hv. 1. þm. Reykv. segir, að þetta sé „bara svona fræðimennska“, sem kemur fram í þessu skjali, sem ég las upp úr og er skrifað af sérfræðingi. En ef á að hætta að leggja neitt upp úr því, sem kemur fram frá slíkum mönnum, þá verður erfitt að átta sig á flóknum hlutum.

En hinsvegar hafði hv. 1. þm. Reykv. að orðtaki í sinni ræðu: „Svo segja fróðir menn“. Ég ætla að láta áheyrendur okkar hv. þm. um að ákveða hver fyrir sig, hvort eru meiri rök, að lesa upp úr greinargerð sérfræðings um málið eða að slá aðeins fram þessari setningu til stuðnings sinn máli: „Svo segja fróðir menn“. Ég legg ekkert upp úr þessu tali hv. þm. um þessa „fróðu menn“.

Allt tal hv. 1. þm. Reykv. um, að landlæknir ætli að lofa okkur að éta eitur til áramóta, er ekkert annað en útúrsnúningur. Í grg. dr. Jóns Vestdals stendur ekkert, sem gefur til kynna, að um banvænt eitur sé að ræða í þessu samlandi. heldur, að ýmist vanti í vörurnar efni, sem eigi að vera í þeim, eða að í þeim séu efni, sem geti verið hættuleg. Það er, að dómi sérfræðingsins ekki um svo bráðhættulegt eitur að ræða í þessum vörum, að þær beri þess vegna að gera upptækar. En full ástæða er þó til að gera út af þessu þær ráðstafanir, sem gerður eru í frv.