02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

Það var ánægjulegt að hlusta á rök hv. 1. þm. Reykv. Ég hefi oft heyrt hann flytja ræður og veit, að hann er vanur að finna bláþræðina í röksemdum andstæðinganna, en ég hefi sjaldan heyrt hann eins „blankan“ og hann var núna. Hann var alltaf í kantinum á röksemdum andstæðinganna, en kom aldrei nálægt aðalefninu. Ég hefi talað um frv. eingöngu, en það er á þá leið, að ríkisstj. taki í sínar hendur framleiðslu nokkurra vörutegunda, sem tilgreindar eru í frv. Hv. 1. þm. Reykv. talaði þannig, að hér væri um það að ræða, að ríkið legði undir sig allan iðnað í landinn. En hér er alls ekki farið fram á það. Hv. þm. sagði, að iðnaðarmenn hefðu oft komið til sín og beðið sig að bera fram þeirra mál. Þetta má vel vera. En ég er hræddur um, að skýrgreining hans á því, hvað séu iðnaðarmenn, sé skökk. Hann talaði þannig eins og iðnaðarmenn væru eingöngu atvinnurekendur, sem ættu fyrirtækin sjálfir. En hann gleymdi öllum þeim, sem vinna að iðnaði án þess að eiga fyrirtækin sjálfir. Hv. þm. sagði, að hann hefði viljað vera einlægur í starfi sínu fyrir iðnstéttina í landinu og viljað með till. sínum skapa sjálfstæða stétt. Trúi nú hver því, sem hann vill um það. Hann sagðist vilja skapa sjálfstæða stétt. Ég veit nú ekki, hvernig hann ætlar að fara að því. Hann ætlar þó víst ekki að hafa það samvinnufélag, þar sem allir bera jafnt frá borði. Hann gekk víst út frá því, að iðnstéttin væru þeir, sem ættu iðntækin, en ekki þeir, sem ynnu hjá öðrum. Ég skil nú, hversvegna hann berst gegn frv. Hann hefir ekki hagsmuni almennings fyrir augum. Hann hugsar eingöngu um að vernda þá, sem eiga iðjufyrirtækin.

Þá sagði hv. þm., að ég þekkti engan iðnað nema í sambandi við apótek. Það er nú kunnugt, að apótekin framleiða mikið af þeim vörum, sem á að taka undir ríkið samkv. frv., enda mun mikið af mótstöðunni gegn frv. þessu runnið þaðan. (MJ: Frá apótekunum?). Já, að langmestu leyti. Hv. 1. þm. Reykv. rekur erindi þeirra í þessu máli. Ég játaði í ræðu minni, að það væri eðlilegt, að svona væri farið með fleiri iðnvörur. Eins og nú standa sakir, er þetta allt framleitt eftirlitslaust, en almenningur hefir ekki skilyrði til þess að dæma um þessar vörur. Með þessu frv. er tvennt unnið, bæði það, að tryggja almenningi, að hann fái góðar vörur, og líka hitt, að þá þarf ekki að hafa eftirlit með mörgum fyrirtækjum, en það gefur að skilja, að það hlyti að vera miklu dýrara. Eða heldur hv. þm., að menn myndu stimpla á vöru sína, að hún væri svo og svo léleg, ef ekkert eftirlit væri með framleiðslu þeirra? Nei, samkeppnisandinn blæs mönnum alls ekki slíku í brjóst.

Hv. þm. sagði, að ég hefði talað um það, að úrsmiðir fölsuðu vörur sínar. Þetta er ekki rétt. Ég sagði, að almenningur hefði ekki skilyrði til þess að dæma um úrviðgerðir, og að sú saga gengi meðal almennings um einn úrsmið, að hann hefði einungis blásið í úrið og tekið 5 kr. fyrir. En allar iðnvörur eru ekki þannig. Almenningur getur t. d. dæmt um það, hvort sumar matvörur eru falsaðar eða ekki.

Hv. þm. virtist taka létt þá rannsókn, sem fram hefir farið á íslenzkum efnivörum. En mér finnst hún ískyggileg. Nafngreindur vísindamaður hefir rannsakað 28 vörutegundir og skýrt frá því, að 12 teg., eða 43%, væru falsaðar eða jafnvel hættulegar til neyzlu. En það er nauðsynlegt að bæta úr þessu, því það er háskalegt fyrir iðnaðinn, ef almenningur hefir vantrú á þeim vörum, sem framleiddar eru hér á landi, og vill heldur erlendar vörur. Mér finnst það hafa sýnt sig, að það þarf að hafa eftirlit með iðnaðinum, og að það sé því rétt, að ríkið taki þetta í sínar hendur og selji almenningi ekki annað en það, sem auglýst er. Enda hefir ríkið enga tilhneigingu til annars. Auk þess er þetta tekjustofn fyrir ríkið. - Ég ætla svo að ljúka máli mínu, og býst ég við, að frv. verði samþ. þrátt fyrir mótstöðu hv. 1. þm. Reykv., enda hefir hann ekki sagt annað en það, sem flokksbræður hans tóku fram í Nd.