02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl.]:

(MJ: N slær þingmaðurinn upp í biblíunni!). - Já, ég var einmitt að hugsa um það, þeirri biblíu, sem hv. 1. þm. Reykv. sótti sitt orðtak í, að hann vildi skipta iðnaðarmönnum í yfirmenn og undirgefna. Það er mjög tilhlýðilegt, enda mun einn kaflinn í kverinu hljóða um það efni. (MJ: Er það í Alþýðublaðinu sérstaklega?). Það er sjálfsagt hægt að finna þá kenningu í „Páli postula“ eftir Magnús dócent. (MJ: Skrifar hann í Alþýðublaðið?).

Þetta er nú hans skilgreining á stéttunum; hann vill endilega hafa það svona, einn atvinnurekanda í hverri grein, sem eigi fyrirtækið, hitt séu allt þjónar. (MJ: Er betra, að það sé einn atvinnurekandi á landinu og allt hitt þjónar?). Hann kom með samanburð á eftirlitinu hér og hélt sig þá við það, sem hér er um að ræða, t. d. þessi glös og öskjur, sem komið hefir til mála, að ríkið taki að sér að framleiða. En það er nokkuð annað að tala um eftirlit í verksmiðjum, sem framleiða tugi milljóna glasa eða askja, eins og hv. þm. sagði; þær verksmiðjur allar hafa sínar eigin fullkomnu rannsóknarstofnanir, og meira að segja í sinni þjónustu fræga vísindamenn, sem gefa vörum þeirra gildi út á við. Nöfn þeirra eru ábyrgð fyrir, að vörurnar séu ósviknar. Auk þess mega slíkar verksmiðjur vara sig á keppinautum sínum, sem einnig hafa fullkomnar rannsóknarstofur, og sannarlega vilja nota tækifæri, ef það kann að gefast, til að klekkja á þeim með því að sanna á þær svik.

Er hægt að bera þetta saman við smákákið hér á landi, þar sem í einu horni á apóteki er verið að bullast við að blanda bökunardropa í nokkur glös? Er nokkurt vit í að bera saman verksmiðjur, sem þannig eru útbúnar, sem hv. þm. var að segja, með rannsóknarstofum og vísindamönnum, og hitt, að setja eftirlitsmenn í þessar litlu kompur, sem hafa ófullkomin áhöld til þessarar iðnar? Ef vel ætti að vera, þyrfti þá líklega að skoða ofan í hvert einasta glas.

Þá sagði hv. þm. út af rannsóknum dr. Jóns Vestdals, að honum sjálfum hefði komið á óvart, að þetta varð opinbert mál. Mér sýnist hann nú hafa talað hispurslaust opinberlega. Hér hefi ég fyrir framan mig langt mál, sem eftir honum var haft í Alþbl. 24. okt., þar sem hann talar hispurslaust um þessa hluti og minnist ekki á, að neinu hefði átt að halda leyndu. Þetta er í tilvitnunarmerkjum, og hann hefir engu af því mótmælt síðan. (MJ: Má ég líta á þetta?) Já, velkomið. Og þó að þessar fölsuðu og skemmdu vörur innihéldu ekki „bráðdrepandi“ efni, eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, þá fæ ég ekki annað séð en að það sé gott og gagnlegt að koma hreyfingu á þetta mál. Það ætti að skapa aðhald fyrir þá, sem framleitt hafa þessar vörur, að þeir ekki framvegis láti í þær eitruð efni né önnur þau efni, sem svikin eru og blekkja almenning á einn eða annan hátt. (MJ: Þessi biblía er rifin og verður naumast lesin!). Það er af því, að hún hefir verið mikið lesin, enda er það sannast að Alþýðublaðið er vel lesið hér á þingi, því að það blað er bókstaflega talað lesið upp til agna.