07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Það er vitanlega enginn ágreiningur um það, að hefta beri framleiðslu á eitruðum vörum eða skaðlegum mannlegum líkama. Það, sem um er deilt, er það, hvort rétt sé að banna einkafyrirtækjum að framleiða þær vörur, sem frv. fjallar um, en það er því aðeins rétt, að sannað sé, að einkafyrirtæki geti ekki búið til óskaðlegar vörur af þessu tægi. Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að nauðsynlegt væri að nota spíritus í þessar vörur, ef þær ættu að vera sæmileg markaðsvara. Ég vil út af þessum ummælum hæstv. ráðh. benda á það, að þar sem telja má víst, að stórkostlegar breytingar verði gerðar á gildandi áfengislöggjöf á þessu þingi, er engin ástæða til þess framvegis að banna einkafyrirtækjum að nota spíritus til þessarar vörugerðar. Sú ástæða, sem hæstv. ráðh. bar fram fyrir frv., er því alveg fallin burt með breytingunni á áfengislögunum.

En auk þess hefir það verið sannað, með a. m. k. alveg jafngóðum rökum og í þessari skýrslu felast, að hægt sé að gera þessa framleiðslu að góðri markaðsvöru án þess að nota spíritus. Yfirlýsing um þetta frá sama sérfræðingnum, sem framkvæmdi rannsóknina, dr. Jóni Vestdal, hefir verið birt hér í blöðunum. Þar lýsir hann yfir því, að bökunardropar frá efnagerðinni „Ljómi“ hér í bænum séu óaðfinnanleg og góð vara, þótt ekki sé notaður í þá spíritus. Enginn hefir haldið því fram, að þessi yfirlýsing sé fölsuð. En með henni er fallin úr sögunni sú eina einasta ástæða, sem þó er nú einskisverð, fyrir frv., sú ástæða, að spíritus þurfi í þessa framleiðslu, en hann megi ekki afhenda einkafyrirtækjum.

Hæstv. fjmrh. sagði, að engin ástæða væri til að tortryggja manninn, sem rannsóknina framkvæmdi. En það liggur alveg í hlutarins eðli, að rannsókn hans sé tortryggð. Maður, sem er forstöðumaður efnagerðar áfengisverzlunarinnar, er látinn framkvæma rannsókn á vörum annara efnagerða, keppinauta þeirrar stofnunar, sem hann veitir forstöðu. Þetta leiðir alveg af sjálfu sér, enda gaf skýrslan sjálf þó nokkuð tilefni til tortryggni, bæði að efni og orðalagi.

Það þýðir ekki að reyna að koma sökinni um það, hvernig rannsóknin hefir verið framkvæmd eða hvernig henni hefir verið beitt, yfir á fyrrv. dómsmrh. Það var vitanlega ekki nema sjálfsagt að láta fara fram þá matvælarannsókn, er landlæknir krafðist, og það hefði hver ráðh. gert. Hitt gat ráðh. ekki vitað, hver tilgangur landlæknis var með þessari rannsókn, eins og nú er komið fram, bæði í vali mannsins og birtingu skýrslunnar, meðan stendur á því máli, sem hér liggur fyrir, enda þótt landlæknir hefði eftir eigin játningu annars ætlað sér að þegja um það, að eiturvörur væru framleiddar hér á landi. Tilgangur fyrrv. dómsmrh. í þessu máli var því í alla staði lofsverður, en það er allt annað en sagt verður um tilgang landlæknis.

Það er auðsætt á því í hvaða tilgangi landlæknir hefir látið framkvæma þessa rannsókn, að hann hefir ekki látið binda hana við matvæli ein, eins og til stóð, heldur ýmsar aðrar vörur, sem einmitt falla undir þetta frv., t. d. hárvötn, sem ég hefi aldrei heyrt talin til matvæla.