07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (539)

11. mál, einkasala á áfengi

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Í sambandi við þessar umr., sem hér hafa farið fram um þetta mál, þykir mér rétt að benda á, að því hefir ekki verið hnekkt með einu einasta orði, að eftirlit verði að fara fram um notkun iðnaðaráfengis, hvernig sem fer um áfengislöggjöfina hér á þingi, og að þetta eftirlit hlýtur að verða umfangsmikið og kostnaðarsamt, svo framarlega sem þess er ekki gætt að gera það ekki erfiðara né umfangsmeira en þörf er á. Í öðru lagi þykir mér miklu máli skipta, að það er orðið viðurkennt og vitað af hverjum manni, að það hafa orðið ærnar misfellur á því, hvernig vissar tegundir af hérlendri framleiðslu eru. Það hefir ekki verið leitazt við að hnekkja þeirri öruggu staðreynd með öðrum rökum en að það finnist aðrar vörutegundir, sem ekki séu skaðlegar. Vitanlega er það svo, að það eru til margar tegundir, sem hvorki er skaðleg né slæm vara, en það verður ekki gengið fram hjá því atriði, hvernig á því stendur, að svo mikil brögð eru að því, að miður góð vara, og ef til vill skaðleg vara, finnst í þessari framleiðslu. Ég get ekki hugsað mér, að það sé af löngun hlutaðeigandi framleiðanda til þess að svíkja sína vöru, að hún er skaðleg, en ætli það láti ekki nærri, sem sagt hefir verið áður í sambandi við þetta frv., en gleymzt hefir í þeirri deilu, sem um það hefir orðið við þessa umr., að það sé sakir þess, að markaðurinn er svo takmarkaður, að það eru litlar líkur til, að margar hérlendar efnagerðir geti haft hver um sig á boðstólum fyrsta flokks vöru, þegar við það bætist, að þær skortir nauðsynleg efni til þess að geta búið til góða vöru. Það er ekki löngunin til að svíkja, sem þessu veldur, heldur er aðstaða þeirra þannig, og tryggingin verður mest fyrir því, að varan sé góð, ef einn aðili er gerður úr garði, sem bezt skilyrðin hefir, til þess að framleiða hana.

Hv. 3. þm. Reykv. leiddi út af öllu þessu þá ályktun, að þetta frv. ætti að fella við þessa umr. Ég sé ekki, hvernig á að fara að álykta svo, út frá þeim upplýsingum, sem fram hafa komið. Enginn þessara manna, sem eru í andstöðu við þetta frv., treystir sér til að færa að því rök, að þeir ágallar, sem hafa orðið á þessari framleiðslu hjá vissum mönnum, mundu hverfa úr sögunni, þó að frv. yrði fellt.

Hv. 3. þm. Reykv. talaði mikið um, og virtist hneykslaður yfir því, að ekki skyldi hafa farið fram rannsókn hjá þessum mönnum fyrir löngu. Eina vonin, sem þeir gera sér á þessu sviði, byggist á því, að hægt sé að líta hvern óhappamanninn á fætur öðrum, í stað þess, að hægt er að komast hjá því með þeirri einföldu framleiðsluleið, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði þá hlægilegu setningu í sinni ræðu, að hann kvaðst ekki vita, hvort hárvatn væri matvæli. Það getur verið mikið vafamál, hvar í flokki eigi að skipa hárvatni. Þessi hv. þm. hefir ekki viljað kalla tóbak óþarfa, heldur almenna neyzluvöru. Ef til vill lítur þessi hv. þm. á hárvatn sem neyzluvöru, en þá er það vara, sem hefir sýnt, að hún getur orðið skaðleg heilsu manna, en hann taldi, að ekki ætti að gera leik að því, að stofna til slíkrar hættu. Ég ætla að láta gilda um þetta sömu röksemd sem ég færði fram áðan, að ég geri ráð fyrir, að það hafi hvorki verið af yfirlögðum fantaskap eða löngun til þess að hafa á boðstólum hættulega vöru, heldur það, að yfirleitt eru ekki möguleikar á að hafa þessa vöru góða, nema að taka framleiðslu þeirra í hendur áfengisverzlunarinnar, sem ein hefir nauðsynleg efni til þess að gera það. Á annan hátt er ekki hægt að fyrirbyggja, að slíkir atburðir eigi sér stað.

Ég held, að mér sé óhætt að segja, að ég hafi einhversstaðar séð á prenti framfærða afsökun fyrir því, að hárvatnið væri eitrað, af því að ekki væri hægt að fá óskaðleg efni til þess að framleiða þessa vöru. Það væri ákaflega hlægilegt, ef af þessu mætti álykta, að í stað hinna vantandi efna væri sjálfsagt að nota eitur. Það gæti leitt út í heldur óþægilega hluti.

Ég held, að það sé óhætt að slá því föstu, hvernig sem mönnum þóknast að deila um skýrslu landlæknis, að það er engin leið til þess að tryggja, að þessi vara verði eins góð og framast er unnt, önnur en að hverfa að því ráði, sem frv. gerir ráð fyrir. Afleiðingin af því, sem upplýzt hefir viðvíkjandi þessu máli nú við umr., er ekki sú, sem hv. 3. þm. Reykv. vildi vera láta - að það eigi að fella frv. - heldur að það eigi að ganga fram, og menn ættu að þakka sínum sæla fyrir, að ekki er heimilað að nota eitur til þessarar framleiðslu.